Íslenski boltinn

Gaupi fór yfir dramatíkina á Selfossi þar sem Þróttarakonur komu tvisvar til baka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það var mikið fjör í leik Selfoss og Þróttar í Pepsi Max deild kvenna í gær.
Það var mikið fjör í leik Selfoss og Þróttar í Pepsi Max deild kvenna í gær. Vísir/Hulda Margrét

Þróttarakonur jöfnuðu metin tvisvar á Selfossi í gær og eru því áfram ofar á markatölu í baráttu um fjórða sæti Pepsi deildar kvenna.

Lokaleikur þrettándu umferðar Pepsi Max deildar kvenna var vissulega æsispennandi í gær.

Selfosskonur tóku á móti Þrótti en liðin voru jöfn að stigum í fjórða og fimmta sæti fyrir leikinn.

Það breyttist ekki því leikurinn endaði með 2-2 jafntefli. Þróttur heldur því áfram fjórða sætinu á betri markatölu. Sigur hefði samt komið báðum liðum upp fyrir Stjörnuna og í þriðja sætið.

Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamaður á Stöð 2, hefur tekið saman allt það helsta úr leiknum í gær og þar má einnig finna viðtöl sem voru tekin eftir hann.

Brenna Lovera var áfram á skotskónum hjá Selfossi og kom sínu liði tvisvar sinnum yfir, fyrst á 12. mínútu og svo aftur á 51. mínútu.

Þróttarar jöfnuðu tvívegis. Fyrst skoraði Katherine Amanda Cousins í uppbótatíma fyrri hálfleiks og svo tryggði hin eldsnögga Dani Rhodes Þrótti stigið með jöfnunarmarki sex mínútum fyrir leikslok.

Hér fyrir neðan má sjá samantekt Gaupa um leikinn.

Klippa: Gaupi um leik Selfoss og Þróttar í Pepsi Max kvenna



Fleiri fréttir

Sjá meira


×