Íslenski boltinn

Mikkelsen: Erfitt andlega að fara frá Breiðabliki

Dagbjört Lena Sigurðardóttir skrifar
Mikkelsen segir erfitt að yfirgefa Breiðablik.
Mikkelsen segir erfitt að yfirgefa Breiðablik. Vísir/Hulda Margrét

Daninn Thomas Mikkelsen var í kvöld að spila sinn síðasta leik í treyju Breiðabliks er liðið vann 3-1 sigur á Stjörnunni í Garðabæ. Mikkelsen hefur leikið með félaginu frá 2018.

Mikkelsen kom inn á sem varamaður eftir rúmlega klukkustundarleik í kvöld sem Blikar unnu nokkuð þægilega. Hann segir erfitt að vera að yfirgefa félagið.

„Það er mjög erfitt andlega að vera að fara frá Breiðablik. Ég hef auðvitað vitað þetta í smá tíma og hef náð að meðtaka þetta betur. En það er mjög erfitt að vera að fara frá þeim. Ég hef notið allra stunda hérna og þetta er því mjög erfið stund fyrir mig. En ég hlakka auðvitað líka til nýju kaflanna sem eru að taka við.“ segir Mikkelsen.

Mikkelsen segir það spila inn í að hann sé á förum þegar Breiðablik er í toppbaráttu. Hann yfirgefur félagið vegna persónulegra ástæðna og heldur heim til Danmerkur. Hann segir þetta hafa verið það eina í stöðunni.

„Ég vildi auðvitað að ég gæti klárað þetta tímabil með þeim. En ég þurfti því miður að taka þessa ákvörðun. Það er erfitt að fara frá liðsfélögum mínum núna. Við höfum verið að spila virkilega vel síðustu vikur. Eins leiðinlegt og mér finnst það hafa þurfa að fara þá var það í raun bara það eina í stöðunni. Ég óska þeim auðvitað bara alls hins besta héðan frá. Ég vona að þeir vinni deildina í ár. Þeir eiga það skilið. Á þessari stundu finnst mér við vera að spila besta fótboltann í deildinni.“

Mikkelsen þakkar þá öllum hjá félaginu kærlega fyrir sinn tíma þar.

„Breiðablik, bæði leikmenn og þjálfarar, hafa verið virkilega góðir við mig frá byrjun og alveg fram til núna. Það er líka ein af helstu ástæðum þess að það var svona erfitt að taka ákvörunina um að fara. Það verður erfitt að kveðja liðsfélaga mína. Breiðablik er bara ein stór fjölskylda fyrir mér. Ég elska þau og ég mun aldrei spila fyrir neitt annað lið á Íslandi. Þetta er mitt lið og ég mun styðja þau heiman frá.“ segir Mikkelsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×