Enski boltinn

Meistarar Manchester City mæta laskaðir til leiks

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Phil Foden (til hægri) verður frá næsta mánuðinn. Þá er ólíklegt að Kyle Walker verði klár í slaginn er enska úrvalsdeildin fer af stað. 
Phil Foden (til hægri) verður frá næsta mánuðinn. Þá er ólíklegt að Kyle Walker verði klár í slaginn er enska úrvalsdeildin fer af stað.  EPA-EFE/FRIEDEMANN VOGEL

Phil Foden verður frá í mánuð vegna meiðslanna sem héldu honum á hliðarlínunni er England tapaði fyrir Ítalíu í úrslitaleik Evrópumótsins í knattspyrnu í síðasta mánuði. Manchester City mætir með laskað til leiks er enska úrvalsdeildin fer af stað um næstu helgi.

Englandsmeistararnir hófu tímabilið á tapi er liðið mætti Leicester City í leiknum um Samfélagsskjöldinn. Það fer þó reyndar eftir því hvort fólk horfi á téðan leik sem mótsleik eða vináttuleik.

Þar sem EM var loks spilað í sumar var ljóst að Pep Guardiola gæti ekki valið alla þá leikmenn sem hann vildi í upphafi móts þar sem sumir þeirra eru fyrst núna að snúa til baka eftir sumarfrí.

Foden er þar á meðal en einnig voru Kyle Walker, John Stones, Edersen og Gabriel Jesus að skila sér til baka eftir þátttöku á EM og í Suður-Ameríkubikarnum.

Nú er ljóst að Foden mun ekki geta tekið þátt þegar enska úrvalsdeildin fer af stað þar sem hann er enn meiddur á fæti. Hann varð fyrir meiðslunum á æfingu með enska landsliðinu fyrir úrslitaleikinn gegn Ítalíu og gat því lítið annað gert en fylgst með er England beið lægri hlut á Wembley.

Ekki nóg með það að Foden sé frá vegna meiðsla og hinir fjórir rétt byrjaðir að æfa þá er Kevin De Bruyne einnig á meiðslalistanum vegna ökkla meiðsla en talið er að hann snúi fyrr til baka en Englendingurinn ungi.

Að lokum er Aymeric Laporte í einangrun þar sem 101 greindust smituð af Covid-19 í flugi sem hann var í nýverið. Hann hefur þegar verið í einangrun í 4-5 daga en það er alls óvíst hvort hann nái leiknum gegn Tottenham Hotspur um næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×