Umfjöllun: Tindastóll - Breiðablik 1-3 | Íslandsmeistararnir skutu Norðankonur niður í fallsæti

Dagur Lárusson skrifar
Vísir/Hulda Margrét

Breiðablik bar sigur úr býtum gegn Tindastóli í Pepsi Max deild kvenna í kvöld en lokatölur voru 1-3.

Það voru stelpurnar í Tindastól sem byrjuðu leikinn betur. Strax á 3.mínútu leiksins fengu þær aukaspyrnu á álitlegum stað eftir að Kristín Dís braut Murielle. Jacqueline stillti boltanum upp og smurði honum síðan í samskeytin, algjörlega óverjandi fyrir Telmu í marki Breiðabliks.

Breiðablik var hins vegar ekki lengi að jafna sig á þessu og fóru smátt og smátt að taka öll völd á vellinum. Það var búið að liggja mark í loftinu í nokkrar mínútur áður en Karitas Tómasdóttir náði að jafna metin á 18.mínútu. Þá fékk hún boltann á vítateigslínunni, virtist missa boltann frá sér en teygði sig svo í hann og náði góðu skoti að marki sem Amber náði ekki að stöðva og staðan því orðin jöfn.

Breiðablik átti síðan nokkur færi til þess að komast yfir áður en flautað var til hálfleiks en náði ekki að nýta því og staðan því 1-1 í hálfleik.

Í seinni hálfleiknum voru það gestirnir sem mættu grimmari til leiks. Það var strax ljóst hvort liðið ætlaði sér að vinna leikinn. Tvö til þrjú færi fóru forgörðum áður en markið kom svo á 56.mínútu. Tæpri mínútu fyrir markið var Kristín Dís næstum því búin að skora en varnamaður Tindastóls náði að bjarga á línu á undraverðan hátt og fengu Blikar hornspyrnu. Boltinn barst inn á teig en svo strax aftur út á kant þar sem Áslaug Munda var og gaf frábæra fyrigjöf inn á teig, beint á kollinn á Ástu Eir sem stýrði boltanum í netið framhjá Amber. Verðskulduð forysta gestanna.

Eftir þetta mark var það frekar líklegra að Blikar myndu bæta við öðru marki heldur en að Tindastóll myndi jafna. Þriðja mark Blika kom svo á 68.mínútu og var það aftur Karitas sem skoraði. Agla María átti flotta takta inn á teig áður en hún gaf boltann til vinstri á Karitas sem skaut boltanum viðstöðulaust í fjærhornið, óverjandi fyrir Amber.

Fleiri mörk voru ekki skoruð í þessum leik og því lokatölur 1-3 en með sigrinum fara Blikar í 31 stig, fjórum á eftir toppliði Vals.

Tindstóll fer hins vegar niður í fallsæti eftir tapið, vegna sigurs Fylkis á Keflavík. Tindastóll er með ellefu stig í níunda sæti, tveimur stigum ofar en botnlið Keflavíkur, einu stigi á eftir Fylki.

Af hverju vann Breiðablik?

Tindastóll byrjaði leikinn af miklum krafti en ég held að einstaklingsgæði Blika hafi einfaldlega verið of mikil í kvöld. Stelpur eins og Áslaug Munda og Karitas spiluðu algjörlega óaðfinnalega sem og þær Kristín Dís og Heiðdís í vörn Blika. En það má þó heldur ekki taka það af Blikum að liðsandinn er nánast áþreifanlegur.

Hverjir stóðu upp úr?

Karitas skoraði tvö mörk og átti frábæran leik inn á miðjunni hjá Blikum. En að mínu mati var Áslaug Munda að eiga einn af sínum bestu leikjum í sumar. Varnarmenn Tindastóls einfaldlega réðu ekki við hana þegar hún fór af stað, svo mikill er hraðinn á henni.

Hvað fór illa?

Það var nú ekki mikið sem fór illa í kvöld. Tindastóll náðu forystunni snemma leiks sem var eflaust planið þeirra og svo liggja aðeins til baka. Þannig mögulega er hægt að segja að plan Tindastóls hafi ekki gengið upp, þær hefðu eflaust getað sett ennþá meiri kraft í það að ná strax öðru marki í stað þess að leyfa Blikum að vera með boltann. Alltaf hættulegt að leyfa þessu Blikaliði að vera með boltann.

Hvað gerist næst?

Það er sannkallaður stórleikur í næstu umferð á föstudaginn en þá fá Blikar topplið Vals í heimsókn en með sigri þar geta Blikar mögulega hrifsað toppsætið af Val. Næsti leikur Tindastóls er hinsvegar gegn Þór/KA þann 17.ágúst.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira