Erlent

YouTu­be setur Sky News í Ástralíu í bann

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
YouTube hefur sett fréttastofuna Sky News í Ástralíu í vikulangt bann vegna myndbanda sem talin eru draga alvarleika heimsfaraldursins í efa.
YouTube hefur sett fréttastofuna Sky News í Ástralíu í vikulangt bann vegna myndbanda sem talin eru draga alvarleika heimsfaraldursins í efa. Getty/Anadolu Agency

Efnisveitan YouTube hefur sett fréttastofuna Sky News í Ástralíu í vikulangt bann. Efnisveitan segir fréttastofuna hafa brotið hegðunarreglur með því að breiða út rangar upplýsingar um Covid-19.

Um er að ræða þriggja stiga viðvörunarkerfi efnisveitunnar sem snýr að hegðunarbrotum. Fréttastofan Sky News í Ástralíu virðist hafa gerst sek um brot á fyrsta stigi, en refsing við því felur í sér vikulangt bann. 

Brot á öðru stigi felur í sér tveggja vikna langt bann og brot á þriðja stigi felur í sér varanlegt bann af efnisveitunni.

YouTube hefur ekki gefið út hvaða myndbönd það voru nákvæmlega sem efnisveitan taldi vera brot á hegðunarreglum en sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis að skýr stefna ríki varðandi dreifingu rangra upplýsinga sem varða heimsfaraldur Covid-19.

Samkvæmt tímaritinu The Guardian bendir allt til þess að bannið sé tilkomið vegna myndbanda þar sem alvarleiki heimsfaraldursins sé dreginn í efa og fólk hvatt til þess að neyta hýdroxýklórókíns eða ivermektíns sem vörn gegn veirunni.

Bannið var sett á síðasta fimmtudag og hefur stafrænn ritstjóri Sky News í Ástralíu sagt að fyrirkomulag efnisveitunnar hafi heftandi áhrif á frjálsa hugsun þeirra sem þar setja inn efni. Þá hafa forsvarsmenn Sky News sagst hafa fundið fjölmörg myndbönd inni á efnisveitunni sem ekki samræmast útgefnum hegðunarviðmiðum og því sé þessum reglum ekki tekið alvarlega.

Það vakti athygli í byrjun júlí þegar fjölmiðlamaðurinn Alan Jones fullyrti í beinni útsendingu á Sky News í Ástralíu að Delta-afbrigðið væri ekki eins alvarlegt og gefið væri út og dró hann jafnframt gagnsemi bóluefna í efa. Fréttastofan var í kjölfarið gagnrýnd fyrir að leyfa samsæriskenningum að þrífast og gefa andstæðingum bólusetninga vettvang til þess að breiða út boðskap sinn.

Þetta er ekki fyrsta bannið sem efnisveitan YouTube hefur gefið út vegna myndbanda sem snúa að kórónuveirunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×