Erlent

Flóð­bylgju­við­vörun í gildi eftir að jarð­­­skjálfti að stærð 8,2 skók Alaska

Eiður Þór Árnason skrifar
Talið er að skjálftinn hafi fundist víða nálægt upptökum hans. 
Talið er að skjálftinn hafi fundist víða nálægt upptökum hans.  Bandaríska jarðvísindastofnunin

Jarðskjálfti að stærð 8,2 mældist við strendur Alaska í morgun, samkvæmt tölum frá bandarísku jarðvísindastofnuninni. Flóðbylgjuviðvörun hefur verið gefin út fyrir hluta ríkisins.

Kraftmikli skjálftinn er sagður vera sá stærsti á svæðinu frá árinu 1964 og var staðsettur um 91 kílómetra austsuðaustur af Perryville í Alaska. Hann reið yfir um klukkan 22:15 að staðartíma, eða 6:15 að íslenskum tíma. 

Minnst tveir sterkir eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið, að stærð 6,2 og 5,6, samkvæmt bráðabirgðatölum jarðvísindastofnunarinnar. Flóðbylgjuviðvörun var meðal annars gefin út klukkan fyrir suðurhluta Alaska og Alaskaskaga. Viðvörunin var síðar felld úr gildi. 

Þá voru yfirvöld í viðbúnaðarstöðu á Hawaii vegna mögulegrar flóðbylgjuhættu en ályktuðu síðar að gögn bentu ekki til þess að hætta væri á ferðum.  

Jarðskjálftinn fannst vel á Alaskaskaganum og Kodiak. Ekki er útlit fyrir að hann hafi valdið miklum skaða að svo stöddu. Um var að ræða grunnan jarðskjálfta sem mældist á 46,7 kílómetra dýpi, að því er fram kemur í frétt CNN.

Samkvæmt flóðbylgjuviðvörunarmiðstöð Kyrrahafsins (PTWC) benda gögn til að flóðbylgja hafi myndast sem gæti valdið tjóni á strandsvæðum fjarri upptökum skjálftans. 

Lögregluyfirvöld í Kodiak, stærsta bænum á samnefndri eyju, hafa hvatt íbúa að færa sig upp á hærra land. Þá hefur fjöldahjálparstöð verið opnuð í skóla. 

Unnið er að því að meta flóðbylgjuhættu annars staðar við strendur Bandaríkjanna og Kanada.  Almannavarnir á Nýja-Sjálandi skoðuðu sömuleiðis hvort hætta væri á að flóðbylgja myndi lenda á ströndum landsins. Síðar var gefið út að lítil eða engin hætta væri þar á ferðum. 

Fréttin var uppfærð klukkan 14:30 með upplýsingum um stöðu flóðbylgjuviðvarana. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.