Enski boltinn

Sol­skjær: Man. United sannaði metnað sinn með því að kaupa Sancho og Vara­ne

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær er sáttur með sumarið hjá Manchester United.
Ole Gunnar Solskjær er sáttur með sumarið hjá Manchester United. AP/Kacper Pempel

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, er ánægður með kaup félagsins í sumar en Manchester United keypti enska landsliðsmanninn Jadon Sancho frá Borussia Dortmund og franska landsliðsmiðvörðinn Raphael Varane frá Real Madrid.

United hefur samþykkt kaupverðið fyrir báða þessa öflugu leikmenn og mun eyða meira en hundrað milljón pundum í þá samanlagt. Solskjær segist ekki hafa getað beðið um meira frá félaginu en hann er að reyna að byggja upp fyrsta meistaralið United frá árinu 2013.

„Ég er mjög ánægður með að okkur hafi tekist að ná samkomulagi við Real Madrid,“ sagði Ole Gunnar Solskjær eftir 2-2 jafntefli á móti Brentford í æfingaleik i gær.

„Hann hefur sannað sig sem sigurvegara og er leikmaður sem við höfum fylgst vel með í mjög mörg ár,“ sagði Ole Gunnar.

„Félagið hefur sýnt og sannað metnað sinn með því að kaupa bæði einn mest spennandi unga framherja heimsfótboltans í Sancho og einn virtasta miðvörð heims,“ sagði Ole Gunnar.

„Eins og ég hef sagt áður þá eru allir stjórar ánægðari því fyrr sem tekst að ganga frá kaupum á leikmönnum og í ár tókst okkur að ganga snemma frá þessu. Þessir tveir munu breyta miklu fyrir okkur og sem stjóri þá gæti ég ekki beðið um meiri stuðning en að fá þessa tvo öflugu leikmenn eins fljótt og raunin er,“ sagði Solskjær.

Mancheser United er nú með miðverðina Raphael Varane, Harry Maguire, Victor Lindelof og Eric Bailly innan sinna raða og nú þykir líklegt að Axel Tuanezbe verði lánaður. Phil Jones er einn miðvörðuinn í viðbót en hann hefur ekki spilað leik í átján mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×