Erlent

Þúsundir langþreyttra Ástrala mótmæltu skertu frelsi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mótmælandi handtekinn í miðborg Sydney í dag.
Mótmælandi handtekinn í miðborg Sydney í dag. AP/Mick Tsikas

Þúsundir flykktust út á götur Sydney og annarra borga í Ástralíu í dag til að mótmæla takmörkunum á frelsi sínu vegna kórónuveirufaraldursins. Nokkrir tugir fólks voru handteknir eftir að hafa brotist í gegnum lokanir lögreglu og hent plastflöskum og plöntum í átt að lögregluþjónum.

AP greinir frá og segir mótmælendur hafa haldið á skiltum með áletrunum um frelsi og sannleikann. Lögregla var viðbúin mótmælunum, grá fyrir járnum auk þess sem óeirðarlögreglufólk stóð vaktina þar sem yfirvöld sögðu mótmælin óheimil.

Í yfirlýsingu frá lögreglunni í Nýju Suður Wales kemur fram að lögreglan virði réttinn til friðsamlegra mótmæla og tjáningarfrelsis. Mótmælin hafi hins vegar brotið reglur settar í þágu heilsu fólks.

„Forgangur lögreglunnar er alltaf öryggi samfélagsins í heild,“ segir í yfirlýsingunni.

Að neðan má sjá myndefni frá mótmælunum auk yfirlýsinga heilbrigðisráðherra í Nýju Suður Wales og Melbourne.

Mótmælin koma í kjölfar áframhaldandi fjölgunar í Covid-19 tilfellum. 163 greindust með Covid-19 í Nýju Suður Wales undanfarinn sólarhring. Íbúum í Sydney og nágrenni hefur verið meinað að yfirgefa heimili sitt án gildrar ástæðu undanfarnar fjórar vikur.

„Við búum í lýðræðisríki og alla jafna styð ég réttinn til að mótmæla. En í augnablikinu fjölgar smituðum gríðarlega og fólki finnst allt í lagi að fjölmenna og vera í návígi hvert við annað á mótmælum,“ sagði Brad Hazzard heilbrigðisráðherra í Nýju Suður Wales.

Í Melbourne mættu þúsundir grímulausra mótmælenda í miðbæinn og kölluðu eftir frelsi. Kveikt var á blysum fyrir utan þinghús borgarinnar. Margir voru með skilti og á einu þeirra stóð:

„Þetta snýst ekki um veiru heldur um ógnarhald ríkisstjórnarinnar á fólkinu í landinu.“

Í gær höfðu 15,4% íbúa sextán ára og eldri fengið tvær sprautur með bóluefni gegn Covid-19.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.