Íslenski boltinn

Arnar: Til þess eru þessir helvítis varamenn

Andri Gíslason skrifar
Arnar Guðjónsson, þjálfari Víkinga.
Arnar Guðjónsson, þjálfari Víkinga. Vísir/Bára Dröfn

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings var sáttur með stigin þrjú sem lið hans fékk á móti Keflavík fyrr í kvöld.

„Ég er mjög sáttur með sigurinn þótt frammistaðan hafi ekki verið nægilega góð. Fyrri hálfleikur var allt of hægur og við vorum með boltann megnið af leiknum en gerðum lítið við hann. Ég missi nú ekki oft stjórn á skapinu en ég var gjörsamlega brjálaður í hálfleik.

Sem betur fer náðum við að knýja fram sigur og frammistaðan í seinni hálfleik var mjög sterk. Keflavík gaf okkur góðan leik, þeir börðust vel og við vorum ekki góðir en við vorum með góða stjórn á leiknum og það var gríðarlega mikilvægt að landa þessum sigri.“

Víkingar lentu undir um miðjan fyrri hálfleik en virtust kveikja á sér eftir það.

„Það er alltaf vandamál að fá á sig mark í fyrsta lagi og sérstaklega svona mark. Við erum búnir að vinna mjög vel í því að verjast fyrirgjöfum og ég á eftir að sjá þetta aftur. Ég veit ekki alveg hvað gerist í þessu marki en við vorum bara “sloppy“ sem hefur verið okkar Akkílesarhæll í sumar. Við höfum ekki fengið á okkur mikið af mörkum en þegar þau koma þá er það rosalega mikill sofandaháttur á öllu liðinu en ég þigg þessi þrjú stig.“

Arnar gerði tvöfalda skiptingu eftir tæpt korter í síðari hálfleik og skilaði það sér í marki mínútu síðar.

„Kwame var frábær þegar hann kom inn á og Adam Ægir líka. Við þurftum að fá vídd og halda víddinni. Við fengum mikið af leikstöðum þar sem við vorum einn á móti einum en nýttum hana ekki nægilega vel í fyrri hálfleik og framan af seinni og það var ástæðan fyrir skiptingunum. Þeir komu sterkir inn og til þess eru þessir helvítis varamenn, þeir þurfa að gera eitthvað gagn þegar þeir koma inn á.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.