Umfjöllun og viðtöl: Kefla­vík - Víkingur 1-2 | Víkingar stigi frá toppnum eftir endurkomusigur

Andri Gíslason skrifar
Víkingur er í harðri baráttu á toppi deildarinnar.
Víkingur er í harðri baráttu á toppi deildarinnar. Vísir/Hulda Margrét

Víkingur vann góðan 2-1 sigur á Keflavík þegar liðin mættust á HS-Orku vellinum í Keflavík fyrr í kvöld.

Það var mikil barátta alveg frá fyrstu mínútu leiksins og sást greinilega að Keflvíkingar ætluðu láta gestina hafa fyrir hlutunum.

Lítið var um almennileg færi fyrstu mínúturnar en á 23.mínútu var komið að heimamönnum. Adam Árni Róbertsson gerði þá virkilega vel í baráttu við Sölva Geir fyrirliða Víkinga og átti gullsendingu á fjærstöngina þar sem Sindri Þór Guðmundsson mætti og skallaði boltann framhjá Þórði í markinu.

Eftir þetta vöknuðu gestirnir og sóttu stíft að marki Keflvíkinga en náðu þó ekki að skapa sér mikið af hættulegum færum.

Kristall Máni sem var ferskur í liði Víkinga í kvöld átti hættulegasta færi Víkinga í fyrri hálfleik þegar hann fékk sendingu út í teiginn en skot hans í varnarmann Keflvíkinga og út fyrir.

Staðan var 1-0 þegar flautað var til hálfleiks og virkaði Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkinga virkilega ósáttur með lið sitt þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Síðari hálfleikur byrjaði rólega en á 53.mínútu fengu Keflvíkingar tvö mjög hættuleg færi í sömu sókninni og hefðu átt að komast í 2-0. Kian Williams fékk þá boltann í vítateignum og náði skoti á markið en Sindri Kristinn varði það til hliðar. Þar stóð Joey Gibbs sem tekur við boltanum og hamrar honum svo í slánna.

Fimm mínútum síðar gerði Arnar Gunnlaugsson tvöfalda breytingu á sínu liði og setti þá Kwame Quee og Adam Ægir Pálsson inn á. Sú skipting skilaði sér einungis mínútu síðar þegar Kwame átti góðan sprett og gerði lítið úr varnarmönnum Keflvíkinga áður en hann setti boltann fyrir markið þar sem Nikolaj Hansen mætti og hamraði boltanum í netið.

Víkingar sóttu stíft að marki Keflvíkinga og á 78.mínútu var það Helgi Guðjónsson, sem hafði komið inn á sem varamaður skömmu áður sem átti frábæran sprett upp kantinn, gerði lítið úr Magnúsi fyrirliða Keflavíkur og setti boltann undir Sindra í markinu. Frábært mark hjá framherjanum knáa.

Fleiri mörk voru ekki skoruð í þessum leik og Víkingar með ansi mikilvægan sigur í toppbaráttunni og eru aðeins einu stigi frá toppliði Vals. Keflvíkingar eru hins vegar þrem stigum frá fallsæti.

Af hverju vann Víkingur?

Það er held ég hægt að segja að þetta hafi verið sanngjarn sigur. Víkingar voru töluvert meira með boltann og ná að koma til baka eftir að hafa verið undir.

Hverjir stóðu upp úr?

Ég ætla að gefa varamönnum Víkinga þennan titil. Kwame Quee var virkilega líflegur ásamt Adami Ægi Pálssyni eftir að þeir komu inn á. Helgi Guðjónsson gerir það sem framherji á að gera og skorar glæsilegt mark.

Hvað gekk illa?

Það gekk ekkert illa svosem, Keflvíkingar hefðu getað komið aðeins framar á völlinn og reynt að spila sig í gegn því þeir eru svo sannarlega með hæfileikana í það.

Hvað gerist næst?

Bæði þessi lið eiga leik eftir tæpa viku. Keflvíkingar mæta Breiðablik á HS-Orku vellinum en Víkingar fá Stjörnuna í heimsókn

Arnar: Til þess eru þessir helvítis varamenn

Arnar Gunnlaugsson gerði góðar skiptingar í leik kvöldsins sem skiluðu árangri.Vísir/Hulda Margrét

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings var sáttur með stigin þrjú sem lið hans fékk á móti Keflavík fyrr í kvöld.

„Ég er mjög sáttur með sigurinn þótt frammistaðan hafi ekki verið nægilega góð. Fyrri hálfleikur var allt of hægur og við vorum með boltann megnið af leiknum en gerðum lítið við hann. Ég missi nú ekki oft stjórn á skapinu en ég var gjörsamlega brjálaður í hálfleik.

Sem betur fer náðum við að knýja fram sigur og frammistaðan í seinni hálfleik var mjög sterk. Keflavík gaf okkur góðan leik, þeir börðust vel og við vorum ekki góðir en við vorum með góða stjórn á leiknum og það var gríðarlega mikilvægt að landa þessum sigri.“

Víkingar lentu undir um miðjan fyrri hálfleik en virtust kveikja á sér eftir það.

„Það er alltaf vandamál að fá á sig mark í fyrsta lagi og sérstaklega svona mark. Við erum búnir að vinna mjög vel í því að verjast fyrirgjöfum og ég á eftir að sjá þetta aftur. Ég veit ekki alveg hvað gerist í þessu marki en við vorum bara “sloppy“ sem hefur verið okkar Akkílesarhæll í sumar. Við höfum ekki fengið á okkur mikið af mörkum en þegar þau koma þá er það rosalega mikill sofandaháttur á öllu liðinu en ég þigg þessi þrjú stig.“

Arnar gerði tvöfalda skiptingu eftir tæpt korter í síðari hálfleik og skilaði það sér í marki mínútu síðar.

„Kwame var frábær þegar hann kom inn á og Adam Ægir líka. Við þurftum að fá vídd og halda víddinni. Við fengum mikið af leikstöðum þar sem við vorum einn á móti einum en nýttum hana ekki nægilega vel í fyrri hálfleik og framan af seinni og það var ástæðan fyrir skiptingunum. Þeir komu sterkir inn og til þess eru þessir helvítis varamenn, þeir þurfa að gera eitthvað gagn þegar þeir koma inn á.“

Eysteinn: Nýtum ekki sénsinn og okkur er refsað fyrir það

Eysteinn Húni Hauksson (t.h.) var að vonum vonsvikinn með tapið.Vísir/Hulda Margrét

Eysteinn Húni Hauksson, þjálfari Keflavíkur var vonsvikinn með tapið gegn Víking fyrr í kvöld.

„Það sem fer úrskeiðis er fyrst og fremst það að við komumst ekki í 2-0 og við fengum tækifæri á því. Við byrjum mjög varnarsinnaðir og erum með góða stjórn á fyrri hálfleik þar sem þeir fá lítið af færum. Þeir eru með marga menn frammi þannig annað hvort föllum við með þeim eða tökum sénsa. Við vorum ekki að taka marga sénsa og þeir voru lítið að skapa.

Við fáum góðan séns á að komast í 2-0 í seinni hálfleik en nýtum hann ekki og okkur er refsað fyrir það.“

Keflvíkingar sýndu góða frammistöðu í seinni hálfleik gegn KR í síðustu umferð og byrjuðu þeir leikinn í dag nokkuð svipað og þeir enduðu síðasta leik. Það voru þó nokkrir punktar sem hann saknaði úr þeim leik.

„Það sem maður saknaði var að menn tæku frumkvæðið þegar þeir fóru að ná undirtökunum. Það vantaði að menn myndu stíga upp, sýna gæði og halda boltanum því þegar við gerum það þá tekst það, oftar en ekki. Það var aðeins eins og menn urðu passívir og fóru að verjast. Ég hafði trú á því að við gætum sýnt meira í leiknum, gæðalega séð með boltann og það er eitthvað sem við þurfum að bæta okkur í.“

Heimamenn í Keflavík féllu töluvert til baka með liðið þegar þeir komust yfir en það var þó ekki planið samkvæmt Eysteini Húna.

„Við vildum vera rólegir enda kom það í ljós þegar staðan var 1-0 þá fengum við mjög góð færi og þetta er þessi frægi munur. Stutt á milli og allt það. Við ætluðum ekkert að fara út úr skotgröfunum einu marki yfir á móti liði sem spilar svona góðan sóknarleik eins og Víkingur. En eins og ég segi þá vantaði að menn tækju á skarið og sýndu ábyrgð þegar þeir voru að ná undirtökunum á leiknum og koma okkur aftur inn í leikinn. Við höfðum það ekki í dag og getum lært af því.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.