Íslenski boltinn

Rúnar: Þeir sköpuðu ekki neitt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var ósáttur við jöfnunarmark Breiðabliks.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var ósáttur við jöfnunarmark Breiðabliks. vísir/hulda margrét

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, hefði viljað fá þrjú stig gegn Breiðabliki í kvöld en liðin gerðu 1-1 jafntefli á Meistaravöllum.

„Þetta er fínt stig. Það færir okkur nær efsta liðinu. Við vildum auðvitað fá þrjú stig. Ég segi ekki að við höfum átt það skilið en ég er mjög ósáttur að fá bara eitt stig miðað við hvernig leikurinn þróaðist,“ sagði Rúnar eftir leik.

KR-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn af gríðarlega miklum krafti og komust yfir með marki Kjartans Henrys Finnbogasonar. Eftir það tóku Blikar stjórnina án þess þó að ógna mikið.

„Við vorum nálægt því að skora í 1-2 skipti eftir að við komust yfir. En svo tóku Blikar yfir og þrýstu okkur til baka án þess þó að skapa nokkuð,“ sagði Rúnar.

Höskuldur Gunnlaugsson skoraði mark Breiðabliks með skoti beint úr aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig.

„Ég er ósáttur við markið sem við fengum á okkur. Við fengum hornspyrnu sem var illa tekin, þeir fóru í skyndisókn og fengu aukaspyrnu við vítateiginn. Við eigum ekki að fá á okkur skyndisókn þegar við eigum hornspyrnu,“ sagði Rúnar.

Hann var ekki á því að KR-ingar hefðu fallið of aftarlega eftir að þeir komust yfir.

„Alls ekki. Það var engin hætta á ferðum og þeir sköpuðu ekki neitt. Þeir mega hafa boltann eins og lengi og þeir vilja en sköpuðu ekki neitt þannig við höfðum engar áhyggjur. Þegar jöfnunarmarkið kom þurftum við að brjóta okkur út úr því og við gerðum það vel og þetta var jafn leikur eftir það,“ sagði Rúnar að lokum.


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.