Erlent

Af­léttingar á Bret­landi eiga ekki við ferða­langa frá Frakk­landi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ferðalangar á leið til Englands og Wales frá Frakklandi munu þurfa að fara í tíu daga sóttkví og tvö Covid-próf við komuna til landsins, óháð bólusetningu.
Ferðalangar á leið til Englands og Wales frá Frakklandi munu þurfa að fara í tíu daga sóttkví og tvö Covid-próf við komuna til landsins, óháð bólusetningu. EPA-EFE/LUIS FORRA

Frá og með næsta mánudegi munu fullbólusettir ferðamenn sem eru á leiðinni til Englands og Wales frá Frakklandi þurfa að fara í tíu daga sóttkví við komuna til landsins. Þetta gildir ekki um ferðalanga frá öðrum ríkjum en stjórnvöld hræðast að Beta-afbrigði veirunnar sé ónæmt fyrir bóluefninu.

Þetta segir í frétt breska ríkisútvarpsins. Beta-afbrigði veirunnar, sem fyrst greindist í Suður-Afríku, telur um tíu prósent nýsmita í Frakklandi, þar á meðal frönsku yfirráðasvæðanna Reunion og Mayotte, sem eru í Indlandshafi. Þar eru nær öll nýsmit af Beta-afbrigðinu.

Yfirvöld hræðast að nái Beta-afbrigðið að dreifa úr sér á Bretlandi muni staðan versna til muna en Delta-afbrigðið, sem talið er talsvert skæðara en Beta-afbrigðið, telur nær öll nýsmit á Bretlandseyjum um þessar mundir.

„Við höfum alltaf verið skýr með það að við munum ekki hika við að grípa til hraðra aðgerða á landamærunum til að stöðva útbreiðslu Covid-19 og vernda þá framför sem hefur orðið hér á landi með bólusetningu landsmanna,“ segir Sajid Javid, heilbrigðisráðherra Bretlands.

„Nú þegar aflétting takmarkana tekur gildi á mánudag um land allt munum við gera allt til þess að tryggja að alþjóðleg ferðalög fari fram á eins öruggan hátt og hægt er, og að við verndum landamæri okkar frá ógn annarra afbrigða.“

Ákvörðunin hefur verið harðlega gagnrýnd af ferðaþjónustunni á Bretlandi og segja ferðaþjónustufyrirtæki að ákvörðunin sé ruglandi.

„Bretland hefur enga staðfasta stefnu þegar kemur að alþjóðlegum ferðalögum,“ segir Willie Walsh, framkvæmdastjóri Alþjóðaflugumferðasamtakanna IATA. Hann segir Bretland „skemma sinn eigin ferðamannaiðnað og þúsundir starfa séu í húfi.“

Með sóttkvíarskyldunni munu allir ferðamenn sem hafa verið í Frakklandi innan tíu daga frá ferðalagi til Bretlands þurfa að fara í sóttkví við komuna til landsins. Þeir þurfa sjálfir að útvega sér húsnæði til að fara í sóttkví í og munu þurfa að fara í Covid-19 próf tveimur og átta dögum eftir komuna til landsins, óháð því hvort þeir séu bólusettir eða ekki.

Þetta á líka við fullbólusetta einstaklinga sem hafa ferðast frá græn- eða gulmerktum löndum til Bretlands með milligöngu í Frakklandi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.