Íslenski boltinn

Kórdrengir nálgast toppbaráttuna og Grótta og Afturelding fjarlægjast botnbaráttuna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Grótta lyfti sér upp í fimmta sæti Lengjudeildarinnar með sigrinum í kvöld.
Grótta lyfti sér upp í fimmta sæti Lengjudeildarinnar með sigrinum í kvöld. Vísir/Haraldur

Þrem leikjum var að ljúka í Lengjudeild karla. Kórdrengir sóttu þrjú stig á Selfoss með 1-0 sigri, Grótta vann sterkan 2-1 sigur gegn Fjölni á heimavelli og Afturelding átti ekki í vandræðum með Víking frá Ólafsvík þegar þeir unnu 6-1.

Davít Ásbjörnsson skoraði eina mark leiksins fyrir Kórdrengi rúmum tíu mínútum fyrir leikslok þegar þeir heimsóttu Selfyssinga.

Kórdrengir eru nú í þriðja sæti Lengjudeildarinnar með 22 stig. Selfyssingar eru í því tíunda með níu stig.

Grótta náði forsytunni gegn Fjölni á 65.mínútu þegar að Guðmundur Karl Guðmundsson varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Kristófer Melsted tvöfaldaði forystu heimamanna þegar um tíu mínútur lifðu leiks, áður en Helgi Snær Agnarsson klóraði í bakkann undir lok leiks.

Sigurinn lyftir Gróttu upp fyrir Fjölni í fimmta sæti, en liðin eru bæði með 17 stig.

Afturelding fór illa með Víkinga frá Ólafsvík þegar liðin mættust í Mosfellsbænum í kvöld.

Víkingar komust reyndar yfir á áttundu mínútu með marki frá Joseja Amat, en fljótlega eftir það fór að fjara undan.

Arnór Ragnarsson skoraði tvö mörk fyrir heimamenn fyrir leikhlé og breytti stöðunni í 2-1.

Aron Sævarsson kom heimamönnum í 3-1 þegar seinni hálfleikur var tæplega fjögurra mínútna gamall, áður en Pedro Vázquez skoraði fjórða mark Aftureldingar.

Kristófer Óskarsson bætti fimmta markinu við þegar að fimm mínútur voru til leiksloka og Hafliði Sævarsson gulltryggði sigurinn algjörlega rétt fyrir leikslok.

Afturelding er nú í sjöunda sæti með 16 stig, en Víkingur Ólafsvík er enn án sigurs á botni deildarinnar með tvö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×