Íslenski boltinn

Unnusta stjörnu­­leik­­manns NFL-deildarinnar til liðs við Þrótt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dani Rhodes er gengin til liðs við Þrótt Reykjavík.
Dani Rhodes er gengin til liðs við Þrótt Reykjavík. Daniel Bartel/Getty Images

Þróttur Reykjavík hefur sótt liðsstyrk til Bandaríkjanna. Dani Rhodes er 23 ára gamall framherji sem kemur frá Chicago Red Stars. Trúlofaðist hún nýverið T. J. Watt, leikmanns Pittsburgh Steelers í NFL-deildinni í Bandaríkjunum.

Hin 23 ára gamla Rhodes hefur ekki fengið mörg tækifæri með Chicago-liðinu það sem af er tímabili. Hún ákvað því að halda á vit ævintýranna og koma til Íslands. 

Rhodes er komin með leikheimild og gæti því verið í leikmannahópi Þróttar í stórleik morgundagsins er liðið fær FH í heimsókn í undanúrslitum bikarsins.

Ekki er langt síðan hinn 26 ára gamli Watts fór niður á eitt hné og bað Rhodes um að giftast sér. Hún játti því en virðist í kjölfarið hafa stokkið upp í flugvél og gengið til liðs við Þrótt Reykjavík hér á landi.  

Watts er einn allra besti varnarmaður deildarinnar og hefur þrisvar sinnum tekið þátt í stjörnuleik NFL-deildarinnar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem unnusta NFL-leikmanns mætir hingað til lands að spila fótbolta eins og frægt er orðið lék Brittany Matthews - í dag eiginkona Patrick Mahomes, leikstjórnanda Kansas City Chiefs - með Aftureldingu sumarið 2017.

Rhodes lék við góðan orðstír með liði Wisconsin-háskólans í Bandaríkjunum. Alls lék hún 85 leiki fyrir Wisconsin Greifingjana og skoraði í þeim 38 mörk. 

Þróttur er komið í undanúrslit Mjólkurbikarsins ásamt því að sitja í 4. sæti Pepsi Max deildarinnar, sex stigum á eftir Breiðabliki sem er í 2. sæti.


Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×