Íslenski boltinn

Þórður í klandri í Kórnum: „Ætlar að gera ein­hverjar krúsídúllur“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þórður Ingason í leik með Víkingum í sumar.
Þórður Ingason í leik með Víkingum í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Þórður Ingason, markvörður Víkinga, kom sér í klípu er hann var að dútla með knöttinn í leik Víkings og HK í Pepsi Max deild karla. Var það til umræðu í Stúkunni að leik loknum.

Leiknum lauk með markalausu jafntefli en það markverðasta í leiknum var þegar Þórður kom sér í mikil vandræði eftir sendingu til baka frá Halldóri Smára Sigurðssyni.

„Það var ekki sending til baka. Hann lenti bara í veseni og þurfti bara að grípa boltann til að bjarga sér. Eftir á að hyggja var það bara rétt ákvörðun,“ sagði Ríkharð Óskar Guðnason, þáttastjórnandi.

„Hann fær sendingu til baka og ætlar að gera einhverjar krúsídúllur. Ælar að snúa á HK-inginn og koma sér í betri stöðu. Er búinn að koma sér í mikil vandræði og eftir á að hyggja – þegar hann fattar hvað hann er kominn í mikla klemmu þá tekur hann boltann bara með hendinni og reddar sér með því að gefa óbeina aukaspyrnu,“ sagði Atli Viðar Björnsson um atvikið.

„Framkvæmdin á þessari óbeinu aukaspyrnu var mjög vond,“ skaut Máni Pétursson svo inn í en það er ljóst að Víkingar voru alls ekki nægilega langt frá er spyrnan var tekin. Máni kallaði hins vegar eftir sérfræðingi í knattspyrnulögum til að fara yfir þetta.

Í spilaranum hér að neðan má sjá atvikið sem um er ræðir og umræðu Stúkunnar.

Klippa: Þórður í klípu

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×