Enski boltinn

Mikið gagnrýndur en vill stýra enska liðinu í Katar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gareth Southgate ætlar ekki að stökkva frá borði.
Gareth Southgate ætlar ekki að stökkva frá borði. Pool/Getty Images/Frank Augstein

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, segir það ekki í sínum plönum að hætta með enska landsliðið þrátt fyrir vonbrigðin í úrslitaleik Evrópumótsins.

Þeir ensku komust í úrslit í fyrsta sinn í háa herrans tíð en eftir að úrslitaleiknum gegn Ítalíu lauk 1-1, lutu Englendingar í gras í vítaspyrnukeppni.

Southgate sjálfur var mikið gagnrýndur fyrir að láta kalda varamenn, þá Marcus Rashford og Jadon Sancho, sem og ungstirnið Bukayo Saka taka vítaspyrnu.

Síðar tók hann tapið á sig en þrátt fyrir vonbrigðin þá er það ekki á stefnunni hjá Southgate að stökkva frá borði.

„Þegar maður er leiðtogi þjóðar sinnar í þessum mótum þá tekur það á. Ég ætla ekki að þjálfa liðið lengur en ég ætti að gera það,“ sagði Southgate.

„Þetta snýst ekki um peninga en eins og mér líður núna, þá vil ég fara með liðið til Katar.“

„Við þurfum að tryggja okkur farseðilinn til Katar en nú þarf ég pásu til þess að fara yfir allt mótið,“ bætti Southgate við.

Hann hefur þjálfað enska liðið frá árinu 2016.


Tengdar fréttir

„Byrjuðu að öskra nafnið hans og hvað þeir elskuðu hann“

„Ég hef aldrei upplifað svona stemningu. Maður komst varla heim og sá bara ekki fyrir sér að fagnaðarlætin myndu taka nokkurn enda,“ segir Andri Már Rúnarsson sem var svo heppinn að vera staddur á Dómkirkjutorginu í Mílanó þegar Ítalir fögnuðu Evrópumeistaratitlinum í fótbolta.

Utan vallar: Southgate gjörsamlega í bullinu, eða hvað?

Þeir voru ekki lengi að snúast gegn honum. Gareth Southgate. Landsliðseinvaldinum sem setti mikla ábyrgð á herðar ungstirna enska landsliðsins í vítaspyrnukeppninni gegn Ítalíu í gær. Þjálfari með allt niðrum sig. Glórulaus ákvörðun. Reka manninn!




Fleiri fréttir

Sjá meira


×