Innlent

Flugbáturinn flaug hringi yfir öflugum gosstrókum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Grumman Goose-flugbáturinn lentur á Hellu eftir útsýnisflug yfir eldgosið. Hann var smíðaður árið 1945 fyrir bandaríska sjóherinn.
Grumman Goose-flugbáturinn lentur á Hellu eftir útsýnisflug yfir eldgosið. Hann var smíðaður árið 1945 fyrir bandaríska sjóherinn. Matthías Sveinbjörnsson

Bandaríski Grumman Goose-stríðsáraflugbáturinn, sem kominn er til landsins vegna flughátíðar á Hellu, flaug hringi yfir eldstöðinni í Fagradalsfjalli um ellefuleytið í morgun á leið sinni frá Keflavíkurflugvelli til Helluflugvallar.

Flugferill Grumman-flugbátsins N642 yfir Reykjanesskaga.Flightradar24

Svo vel vildi til að einmitt á þeirri stundu var talsverður kraftur í gígnum. Þriggja manna áhöfn flugbátsins hefur væntanlega fengið magnaða sýn á gosið sem sendi frá sér gosstróka hátt yfir gígbarmana.

Gosstrókanir um ellefuleytið í morgun um það leyti sem flugbáturinn sveimaði yfir eldstöðinni.Vefmyndavél Vísis/Skjáskot

Áhöfn flugbátsins hafði ætlað sér að fljúga til Hellu í gær en neyddist til að bíða af sér lága skýjahæð í Keflavík sem hamlaði sjónflugi. Í morgun rofaði svo til og fór flugbáturinn í loftið laust fyrir klukkan ellefu. Eftir flugtak var stefnan tekin beint á eldstöðina og tóku flugmennirnir þar tvo hringi lágt yfir gosinu, í 700 til 1.100 feta hæð, áður en flogið var áfram til Rangárvalla.

Flugbáturinn er til sýnis á Helluflugvelli í dag. Grumman Goose-sjóflugvélar mörkuðu spor í flugsögu Íslendinga á uppsárum reglubundins innanlandsflugs.Matthías Sveinbjörnsson

Þegar komið var yfir hátíðarsvæðið á Helluflugvelli tóku flugmennirnir aukahring áður en lent var laust fyrir klukkan hálftólf. Þar verður báturinn til sýnis í dag. Af öðrum dagskrárliðum í dag má nefna listflugskeppni og sýningu kanadíska listflugmannsins Luke Penner. Þá er von á kanadískri P-3 Orion kafbátaleitarflugvél í lágflugi yfir svæðið.


Tengdar fréttir

Grumman flugbátur á leið á flughátíð á Hellu

Bandarískur flugbátur frá árum síðari heimsstyrjaldarinnar af gerðinni Grumman Goose er væntanlegur á flughátíðina Allt sem flýgur, sem stendur yfir á Helluflugvelli. Þar verður flugbáturinn til sýnis á morgun, laugardag, en honum var flogið sérstaklega til Íslands frá Seattle til að taka þátt í hátíðinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×