Innlent

Grumman flugbátur á leið á flughátíð á Hellu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Grumman-flugbáturinn í Narsarsuaq á Grænlandi í gær þar sem eldsneyti var tekið áður en haldið var til Íslands.
Grumman-flugbáturinn í Narsarsuaq á Grænlandi í gær þar sem eldsneyti var tekið áður en haldið var til Íslands. Grumman N642

Bandarískur flugbátur frá árum síðari heimsstyrjaldarinnar af gerðinni Grumman Goose er væntanlegur á flughátíðina Allt sem flýgur, sem stendur yfir á Helluflugvelli. Þar verður flugbáturinn til sýnis á morgun, laugardag, en honum var flogið sérstaklega til Íslands frá Seattle til að taka þátt í hátíðinni.

Flugbáturinn millilenti meðal annars í Goose Bay á Labrador og í Narsarsuaq á Grænlandi og kom svo til Keflavíkur í gær. Þar hafa flugmenn hans beðið færis í dag að skýjahæð hækki svo þeir geti flogið sjónflug til Hellu. Vonast þeir til að ná til Rangárvalla fyrir kvöldið en þar er aftur á móti sól og blíða, að sögn Matthíasar Sveinbjörnssonar, forseta Flugmálafélags Íslands.

Flugbáturinn í Goose Bay í Kanada. Hann var upphaflega smíðaður árið 1945 fyrir bandaríska sjóherinn.Grumman N642

Flugbáturinn var upphaflega smíðaður árið 1945 fyrir bandaríska sjóherinn. Árið 1954 var hann færður í þjónustu innanríkisráðuneytisins og sinnti verkefnum í Alaska allt til ársins 1989 þegar hann var seldur einkaaðilum. Hann hafði áður fengið nýja túrbínuhreyfla árið 1968. Vorið 2010 hóf sérstakur félagsskapur um Grumman flugbátinn, Goose N642, að gera hann upp og var honum nánast umbreytt í nýja flugvél.

Grumman Goose-sjóflugvélar mörkuðu spor í flugsögu Íslands á upphafsárum reglubundins innanlandsflugs. Bæði Loftleiðir og Flugfélag Íslands ráku slíkar vélar á árunum 1944 til 1956 enda hentuðu þær vel íslenskum aðstæðum fyrir tíma landflugvalla þar sem hægt var að lenda þeim bæði á sjó og landi. Fyrsta Gæsluflugvél Íslendinga var einnig Grumman Goose, vél sem Landhelgisgæslan leigði árið 1948.

Grumman Goose-sjóflugvél á Akureyri í kringum 1950. Eftir lendingu á sjó var hægt að aka þeim upp á land.Wikiwand/Guðmar Gunnlaugsson

Á flughátíðinni á Hellu er keppt í vélflugi, fisflugi, drónaflugi, svifflugi og listflugi. Hápunktur hátíðarinnar er listflugskeppnin á morgun, laugardag. Þá er von á kanadískri P-3 Orion kafbátaleitarflugvél í lágflugi yfir svæðið. Ennfremur mun kanadíski listflugmaðurinn Luke Penner, sem hefur unnið til fjölda verðlauna, sýna listir sínar.

Að sögn Matthíasar gefst gestum hátíðarinnar kostur á að prófa flugvélar, svifflugur og keppnisdróna á vegum aðilarfélaga Flugmálafélagsins og eru allir velkomnir.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×