Hæstiréttur Suður-Afríku dæmdi Zuma fyrir að hafa sýnt dómstól óvirðingu þegar hann neitaði að mæta fyrir dómara í tengslum við spillingarrannsókn sem beindist að honum þegar hann gegndi embætti forseta.
Zuma mun afplána dóm sinn í Estcourt-fangelsinu í KwaZulu-Natal, heimahéraði Zuma.
BBC segir frá því að lögregla hafi varað hinn 79 ára Zuma við að hún væri reiðubúin að handtaka Zuma, myndi hann ekki gefa sig sjálfur fram við lögreglu fyrir miðnætti.
Zuma er fyrsti maðurinn til að hafa gegnt forsetaembættinu í landinu sem þarf að afplána fangelsisdóm eftir að hafa látið af embætti.
Nokkur fjöldi stuðningsmanna Zuma hafði safnast saman fyrir utan höll hans síðasta sunnudag og reyndu að koma í veg fyrir að hann yrði handtekinn.
Forsetatíð Zuma, sem stóð frá 2009 til 2018, einkenndist af ítrekuðum ásökunum um spillingu. Voru þungavigtarmenn í viðskiptalífi landsins sakaðir um að hafa mútað stjórnmálamönnum og þannig hafa áhrif á stefnumótun stjórnvalda.