Erlent

Þúsundir mótmæla eftir að samkynhneigður maður var myrtur

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Samuel Luiz var myrtur af hópi fólks og talið er að kynhneigð hans hafi verið kveikjan að árásinni.
Samuel Luiz var myrtur af hópi fólks og talið er að kynhneigð hans hafi verið kveikjan að árásinni. EPA-EFE/JAVIER LOPEZ

Þúsundir hafa leitað á götur úti í borgum og bæjum á Spáni til að krefjast réttlætis, jafnréttis og verndar eftir að samkynhneigður maður var myrtur af hópi manna. Lögregla telur að árásarkveikjan hafi verið fordómar árásarmannanna fyrir hinsegin fólk.

Samuel Luiz, 24 ára gamall sjúkraliði, var úti á lífinu með vinum sínum í borginni a A Coruna í Galasíu á aðfaranótt laugardags þegar rifrildi braust út milli hans og tveggja manna.

Vinur Luiz sagði í samtali við El Mundo að hann hafi farið út af skemmtistaðnum til að hringja myndsímtal þegar tveir menn sem gengu hjá sökuðu hann um að taka þá upp á myndband. Luiz hafi þá útskýrt fyrir þeim að hann væri að tala við vin sinn en að annar maðurinn hafi þá ráðist á hann og barið hann í andlitið. The Guardian greinir frá. 

Aðeins fimm mínútum síðar hafi árásarmaðurinn snúið aftur með tólf til viðbótar. Réðst hópurinn á hann og missti Luiz meðvitund eftir átökin. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann dó seinna um morguninn.

Árásin er nú til rannsóknar en hún hefur vakið mikla reiði víða um Spán og var mótmælt víðsvegar í gær, þar á meðal í A Coruna, Madrid, Barcelona, Valencia, Salamanca, Bilbao og Zaragoza. Mótmælendur héldu margir á skiltum sem á stóð „Hinseginfordómar þínir eru að drepa okkur.“

Stjórnmálamenn í Madríd hafa kallað eftir svörum frá ríkisstjórninni eftir að lögregla handtók og ákærði mótmælendur í borginni í gær. Pedro Sánchez, forsætisráðherra, hefur fordæmt morðið á Luiz og sent vinum og fjölskyldu Luiz samúðarkveðjur.

Enn hefur enginn verið handtekinn vegna árásarinnar en fimmtán hafa mætt í skýrslutöku hjá lögreglu. Þá er vonast til þess að upptökur úr öryggismyndavélum muni hjálpa til við rannsókn málsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.