Íslenski boltinn

Þróttur á toppinn og Njarðvíkingar skoruðu níu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Njarðvíkingar skoruðu níu í dag.
Njarðvíkingar skoruðu níu í dag.

Fimm leikir fóru fram í 10. umferð 2. deildar karla í fótbolta í dag. KV fór úr toppsæti deildarinnar niður í það þriðja eftir tap fyrir Völsungi. Þróttur Vogum og Njarðvík fóru upp í efstu tvö sætin eftir sigra.

Bæði Kenneth Hogg og Magnús Þórðarson skoruðu þrennu fyrir Njarðvíkinga í 9-1 stórsigri þeirra á Leikni frá Fáskrúðsfirði í Njarðvík í dag. Einar Orri Einarsson, Bergþór Ingi Smárason og Tómas Óskarsson skoruðu þá eitt mark hver en Inigo Albizuri Arruti skoraði mark gestanna að austan.

Leiknismenn eru í 10. sæti deildarinnar með níu stig, fimm stigum frá fallsæti. Njarðvíkingar fara aftur á móti upp fyrir KV í annað sæti deildarinnar en Vesturbæingar töpuðu 3-2 fyrir Völsungi á heimavelli í dag.

Njarðvík er með 20 stig í 2. sætinu, stigi á undan KV sem fer niður í það þriðja.

Þróttur Vogum fór á toppinn, með 21 stig, eftir 1-0 útisigur á Magna á Grenivík þar sem mark Rúbens Lozano Ibancos úr vítaspyrnu seint í fyrri hálfleik dugði til sigurs. Þróttarar léku færri frá 78. mínútu þegar Marc Wilson, fyrrum leikmaður Stoke og Portsmouth í ensku úrvalsdeildinni, fékk að líta sitt annað gula spjald.

ÍR átti þá sætaskipti við KF eftir öruggan 6-0 sigur í viðureign liðanna. ÍR er í 5. sæti deildarinnar með 15 stig, en KF er með 14 stig í 6. sæti.

Fjarðabyggð og Reynir Sandgerði skildu þá jöfn, 2-2, fyrir austan. Reynier er með 14 stig í 6. sæti, en KF sæti ofar og Völsungur sæti neðar, eru einnig með 14 stig. Fjarðabyggð leitar enn fyrsta sigurs síns og er með fimm stig í 11. sæti.

10. umferðin klárast á morgun með leik Hauka og Kára í Hafnarfirði klukkan 19:15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×