Erlent

Minnst 29 látnir eftir að her­flug­vél brotlenti

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Vélin hrapaði rétt fyrir hádegi að staðartíma.
Vélin hrapaði rétt fyrir hádegi að staðartíma. Joint Task Force-Sulu via AP

Minnst 29 manns létust þegar herflugvél brotlenti á filippseysku eyjuna Jolo rétt fyrir hádegi að staðartíma, eða á fjórða tímanum í nótt að íslenskum tíma.

Samkvæmt breska ríkisútvarpinu hefur björgunaraðilum tekist að draga 50 manns lifandi út úr flaki vélarinnar, sem var að flytja 92 hermenn til suðurhluta Filippseyja. Hersveitir í landinu hafa um langt skeið staðið í átökum við vígahópa á syðri eyjum klasans.

Mikinn reyk lagði frá vélinni eftir að hún brotlenti, og myndir frá vettvangi sýna mikla eyðileggingu þar sem hún hafnaði.

Stjórnvöld í Filippseyjum segja engin ummerki um að vélin hafi orðið fyrir árás, en að málið yrði rannsakað þegar björgunaraðgerðum yrði lokið.

„Vélin hitti ekki á flugbrautina, reyndi að ná upp krafti en tókst það ekki,“ hefur breska ríkisútvarpið eftir herforingja í filippseyska hernum.

Flugbrautin í Jolo er styttri en flestar aðrar flugbrautir Filippseyja og því erfiðara að lenda stórum flugvélum þar, hefur AP-fréttaveitan eftir ónafngreindum heimildamanni innan hersins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×