Íslenski boltinn

Stórsigur FH eykur á spennuna á toppnum

Valur Páll Eiríksson skrifar
FH er í mikilli baráttu við KR og Aftureldingu um hvert liðanna fer upp.
FH er í mikilli baráttu við KR og Aftureldingu um hvert liðanna fer upp. VÍSIR/DANÍEL

Áttundu umferð Lengjudeildar kvenna lauk í kvöld með þremur leikjum. FH sækir að efstu liðum.

FH mætti liði Víkings frá Reykjavík í Víkinni í Fossvogi í kvöld. FH var fyrir leik með 15 stig, þremur frá Aftureldingu fyrir ofan sig og fjórum frá toppliði KR. Víkingur var aftur á móti með 11 stig í fjórða sætinu og gat sótt að toppliðunum með sigri.

Skemmst er frá því að segja að FH konur léku á als oddi og unnu öruggan 4-0 sigur. Sá sigur þýðir að liðið jafnar Aftureldingu að stigum með 18, stigi frá toppnum. Spennan er því mikil milli þessara þriggja liða um hvað þeirra fer upp í deild þeirra bestu að ári.

Grótta vann þá mikilvægan 3-2 sigur á Augnabliki á Seltjarnarnesi. Augnablik gat farið upp fyrir Gróttu með sigri, en situr enn í níunda og næst neðsta sæti deildarinnar með fimm stig, á meðan Grótta fer upp í sjötta sæti með 10 stig.

Þá skildu HK og Grindavík jöfn 1-1 í Kópavogi. Grindavík er sem fyrr á botni deildarinnar með fjögur stig, stigi frá Augnabliki, en fjórum frá HK sem situr í áttunda sæti með átta stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×