Enski boltinn

Liver­pool sagt vilja að kaupa „rað­meistarann“ frá Bayern München

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kingsley Coman hefur unnið fjölda titla á sínum ferli og þekkir ekkert annað en að verða meistari með sínu liði. Hér er hann með Meistaradeildarbikarinn í fyrra.
Kingsley Coman hefur unnið fjölda titla á sínum ferli og þekkir ekkert annað en að verða meistari með sínu liði. Hér er hann með Meistaradeildarbikarinn í fyrra. Getty/Michael Regan

Að vera með Kingsley Coman í liði sínu hefur bara þýtt eitt undanfarinn áratug. Þú verður meistari. Nú vill Liverpool nýta sér þjónustu franska raðmeistarans samkvæmt fréttum að utan.

Augu margra eru nú á Jürgen Klopp og Liverpool eftir að Manchester United gekk í vikunni frá kaupunum á Jadon Sancho frá Borussia Dortmund. Það þykir líklegt að Liverpool komi með einhvers konar mótleik.

Sumir miðlar nefna franska vængmanninn Kingsley Coman hjá Bayern München sem leikmann sem gæti bætt miklu við Liverpool liðið. Sömu miðlar telja sig vita að Liverpool hafi mikinn áhuga. Coman hefur ekki framlengt samning sinn við þýsku meistaranna en samningurinn rennur þó ekki út fyrr en í lok júní 2023.

Það hefur þó verið bent á það af öðrum miðlum að fréttirnar gætu þó hafa komið frá umboðsmanni leikmannsins sjálfs sem vill komast í ensku úrvalsdeildin.

Kingsley var með átta mörk og fimmtán stoðsendingar í 36 leikjum í deild og Meistaradeild á síðustu leiktíð.

Liverpool hefur verið orðað við Kingsley Coman í nokkurn tíma en það fer tvennum sögum af því hvort að kaupverðið geti orðið í kringum tuttugu milljónir punda eða hvort að Bayern vilji fá hátt í hundrað milljónir punda fyrir leikmanninn.

Coman er enn bara 25 ára gamall en hann hefur orðið meistari á hverju tímabil síðan að hann byrjaði sem atvinnumaður. Hann vann tvo titla með PSG, svo tvo titla með Juventus og hefur síðan unnið sex titla í röð með Bayern.

Coman náði því meðal annars að verða bæði ítalskur og þýskur meistari tímabilið 2015-16 þegar hann færði sig yfir á miðju tímabili.

Coman komst líka í fréttirnar fyrir að tryggja Bayern München sigur í Meistaradeildinni í fyrra og þá hefur hann spilað yfir þrjátíu landsleiki fyrir Frakka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×