Erlent

Óttast að þúsundir gætu misst réttindi í Bretlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Bretar samþykktu að segja skilið við Evrópusambandið í júní árið 2016. Nú er komið að því að binda enda á frjálsa för á milli Bretlands og meginlands Evrópu.
Bretar samþykktu að segja skilið við Evrópusambandið í júní árið 2016. Nú er komið að því að binda enda á frjálsa för á milli Bretlands og meginlands Evrópu. AP/Kirsty Wigglesworth

Frjálsri för Evrópubúa í Bretlandi og Breta í Evrópu lýkur á morgun. Félagasamtök í Bretlandi óttast að þúsundir evrópskra borgara sem búa gætu misst ýmis réttindi því þeir átta sig ekki á að þeir þurftu að sækja um áframhaldandi dvöl  í síðasta lagi í dag.

Innflytjendur frá Evrópusambandsríkjum sem hafa ekki skilað inn umsókn um að framlengja dvöl sína í Bretlandi á morgun missa rétt sinn til að vinna, leigja húsnæði og að sumri heilbrigðisþjónustu og opinberum bótum. Í sumum tilfellum gæti fólki jafnvel verið vísað úr landi.

Samtök sem berjast fyrir réttindum innfltjenda í Bretlandi óttast að tugum eða jafnvel hundruðum þúsunda Evrópumanna kunni að hafa láðst að sækja um. Eldra fólk sem hefur búið í landinu um áratugaskeið geri sér ekki grein fyrir því að það þurfi að sækja um að fá að vera áfram. Opinberar tölur benda til þess að aðeins 2% þeirra sem hafa sótt um áframhaldandi dvöl í Bretlandi séu 65 ára eða eldri. 

Þá óttast samtökin að margir geri sér ekki grein fyrir því að þeir þurfi að sækja um dvalarleyfi fyrir börnin sín líka.

Áhrifin komi ekki fram fyrr en síðar

Madelaine Sumption, forstöðukona rannsóknarmiðstöðvar Oxford-háskóla um innflytjendamál, segir að margir Evrópubúa, sérstaklega ungt fólk sem á foreldra sem sóttu ekki um dvalarleyfi fyrir það, komist ekki endilega að því að það hafi misst réttindi sín strax.

„Sumum verður það aðeins ljóst síðar, til dæmis þegar þau fá nýja vinnu eða þurfa umönnun á sjúkrahúsi. Það gætu liðið mörg ár þar til lagalegar, efnahagslegar og félagslegar afleiðingarnar koma fram,“ segir Sumption.

Samkvæmt opinberum tölum hafa 5,6 milljónir evrópskra borgara sótt um að fá dvalarleyfi áfram í Bretlandi, meirihlutinn frá Póllandi og Rúmeníu. Það eru mun fleiri umsóknir en búist var við, að sögn AP-fréttastofunnar.

Um helmingi þeirra hefur verið veitt dvalarleyfi en um tveimur milljónum innflytjenda var sagt að þeir hefðu búist of stutt í landinu og að þeir verði að sækja um aftur þegar þeir hafa búið í fimm ár í Bretlandi.

Um ein milljón Breta sem býr í ríkjum Evrópusambandsins missir einnig réttindi sín þar á morgun. Bretar búsettir í Frakklandi höfðu til dagsins í dag til þess að sækja um áframhaldandi dvöl þar. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×