Erlent

Segja átta­tíu hafa farist í loft­á­rásum í Tigray

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Heilbrigðisyfirvöld segja minnst áttatíu hafa látist í loftárásunum.
Heilbrigðisyfirvöld segja minnst áttatíu hafa látist í loftárásunum. EPA-EFE/STR

Loftárásir stjórnarhers Eþíópíu hæfðu markað í þorpinu Togoga í Tigray í gærmorgun. Heilbrigðisstarfsmenn á svæðinu segja minnst áttatíu hafa farist í árásinni og að hermenn hafi meinað heilbrigðisstarfsmönnum aðgang að svæðinu til að hlúa að særðum.

Þetta kemur fram í frétt AP. Tveir læknar og hjúkrunarfræðingur segja í samtali við AP að ekki hafi tekist að staðfesta tölu látinna, en talið er að áttatíu hafi farist í árásinni. Þeir þorðu ekki að koma fram undir nafni og segjast hræddir um að verða refsað fyrir að tjá sig um málið.

Átök i Tigray héraðinu í Eþíópíu hafa aldrei verði verri en undanfarna mánuði en átökin hófust í nóvember síðastliðnum þegar eþíópíski herinn réðist inn í héraðið til að koma þáverandi leiðtoga þess frá völdum.

Fólk sem særðist í árásinni, og liggja nú á sjúkrahúsi í Mekele, tjáði heilbrigðisstarfsfólki að flugvél hafi látið sprengjur falla á markaðinn í Togoga. Hinir særðu eru sex talsins, þar á meðal tveggja ára gamalt barn sem hlaut sár á kviði, og sex ára barn. Ungbarn sem særðist í árásinni lést í sjúkrabíl á leiðinni á spítalann í Mekele, sem er 60 kílómetrum frá Togoga. Sjúkraflutningamenn segja að herinn hafi stöðvað sjúkrabílinn í tvo klukkutíma sem hafi líklega leitt til þess að ekki tókst að bjarga lífi barnsins.

Síðdegis í gær gerði floti sjúkrabíla tilraun til að komast til Togoga en honum var gert að snúa við af hermönnum við bæinn Tukul. Fleiri sjúkrabílar gerðu tilraun til að komast til Togoga seint í gær og í morgun en þeim tókst ekki að komast á staðinn. Fjöldi heilbrigðisstarfsmanna komst til Togoga, frá Mekele, í morgun en þeir þurftu að fara aðra og flóknari leið.

Heilbrigðisstarfsmennirnir hafa hlúið að fjörutíu særðum en talið er að mun fleiri hafi særst í árásinni en fjöldi fólks flúði bæinn í kjölfar árásarinnar. Þá eru minnst fimm í Togoga í lífshættulegu ástandi og þurfa á skurðaðgerðum að halda en heilbrigðisstarfsmenn eru ekki í stöðu til að flytja þá á sjúkrahúsið í Mekele.

Læknir sem er staddur í Togoga segir að sjúkrabíll á vegum Rauða krossins hafi gert tilraun í gær til að komast á markaðinn en að eþíópískir hermenn hafi skotið á sjúkrabíllinn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.