Erlent

Hyggjast rannsaka áhrif Ivermectin gegn Covid-19

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Í apríl síðastliðnum var Ivermectin dreift ókeypis til íbúa í bæ á Filippseyjum.
Í apríl síðastliðnum var Ivermectin dreift ókeypis til íbúa í bæ á Filippseyjum. epa/Rolex Dela Pena

Rannsakendur við Oxford-háskóla hyggjast gefa einstaklingum eldri en 50 ára með einkenni Covid-19 lyfið Ivermectin til að kanna hvort notkun þess sporni gegn sjúkrahúsinnlögnum af völdum sjúkdómsins.

Um er að ræða þátt í svokallaðri Principle-rannsókn en niðurstöðurnar verða bornar saman við útkomu sjúklingahóps sem fær hefðbunda meðferð innan opinberu heilbrigðisþjónustunnar.

Ivermectin hefur löngum verið notað gegn ýmsum sýkingum af völdum sníkjudýra en notkun þess gegn Covid-19 hefur verið afar umdeild. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og ýmsir aðrir aðilar hafa mælt gegn notkun lyfsins, á meðan einstaka læknar segja það hafa gefið góða raun.

Staðreyndin er sú að þrátt fyrir sögur af virkni Ivermectin gegn Covid-19 hefur notkun lyfsins gegn sjúkdómnum ekki verið könnuð í stórum rannsóknum. 

Ósamræmið milli vænlegra niðurstaða í afmörkuðum athugunum og tilmæla opinberra yfirvalda um að nota lyfið ekki hefur orðið til þess að samsæriskenningar blómstra á netinu um að verið sé að halda upplýsingum um lækningu við Covid-19 frá almenningi.

Filippeyski þingmaðurinn Mike Defensor talar fyrir notkun Ivermectin.epa/Rolex Dela Pena

Ýmis önnur lyf hafa gefið von um árangursríka meðferð gegn Covid-19 en ekki staðist skoðun við nánari athugun. Eitt þeirra er sýklalyfið Azithromycin, sem einnig var tekið fyrir í Principle-rannsókninni.

Þrátt fyrir skort á sönnunargögnum um virkni Ivermectin gegn Covid-19 hefur því verið ávísað gegn sjúkdómnum í ríkjum í Afríku og Suður-Ameríku. Þá virðist uppáskriftum hafa fjölgað í Bandaríkjunum.

Rannsakendurnir við Oxford-háskóla segjast hafa valið að rannsaka lyfið vegna þess að það sé fáanlegt víða um heim og tiltölulega öruggt. 

Hingað til hafa aðeins tvö lyf sem hafa verið til skoðunar í Principle-rannsókninni og systurverkefninu Recovery reynst áhrifarík gegn Covid-19; steralyfin budesonide og dexamethasone.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×