Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Leiknir 1-0 | Annar sigur Keflvíkinga í röð

Atli Arason skrifar
Breiðablik - Keflavík Pepsi deild karla vetur 2021 fótbolti KSÍ
Breiðablik - Keflavík Pepsi deild karla vetur 2021 fótbolti KSÍ Foto: Hulda Margrét Óladóttir/Hulda Margrét

Leikurinn byrjaði af vel fyrir heimamenn. Keflavík átti hættulegri marktækifæri í upphafi leiks. Eftir flotta tvöfalda markvörslu hjá Guy Smit frá Frans Elvarssyni á fimmtu mínútu fer boltinn aftur fyrir endamörk og hornspyrna sem Keflavík fær. Dagur Ingi Valsson tekur hornspyrnuna og hann fleytir boltanum yfir allan pakkann inn í vítateig Leiknis en á fjærstönginni er Joey Gibbs sem skallar boltann í net Leiknis. Eftir mark Keflavíkur róaðist leikurinn aðeins en heimamenn spiluðu flottan varnarleik á Leikni og áttu einnig hættulegri færi á meðan að Leiknir átti ekki skot í átt að markinu í fyrri hálfleik.

Leiknir kom sterkara út í seinni hálfleik og fyrsta skot Leiknis kom í snemma í hálfleiknum, en það var skot frá Emil Berger sem fór hátt yfir markið. Stuttu síðar átti Daníel Finns skot sem fór rétt fram hjá mark Keflavíkur. Í kjölfarið komu nokkrar marktilraunir frá Keflavík en fyrsta skotið sem Sindri Kristinn, markvörður Keflavíkur, þurfti að verja frá gestunum kom á 74. mínútu þegar varamaðurinn Arnór Ingi átti kollspyrnu í átt að marki Keflavíkur. Þegar fimm mínútur eru eftir að leiknum hefði Ari Steinn getað klárað leikinn fyrir heimamenn þegar hann sleppur einn í gegnum vörn Leiknis og Guy Smit, markvörður Leiknis, var kominn langt út fyrir sinn eigin vítateig, í stað þess að reyna að fara fram hjá Smit þá reynir Ari skot sem fer annars beint í magann á Smit og gestirnir sleppa með skrekkinn. Þetta klúður ætlaði næstum því að bíta heimamenn í rassinn því rétt fyrir leikslok þá spólar Daníel Finns sig í gegnum vörn Keflavíkur með því að klobba Frans og labba fram hjá Ignacio áður en hann stingur boltanum í gegn á Mána Austmann en Sindri Kristinn ver frábærlega frá Mána til að halda laki Keflavíkur áfram hreinu. Í uppbótatíma kemst Máni svo aftur í gegnum vörn Keflavíkur í algjört dauðafæri en skot Mána er slakt og beint á Sindra. Fór því svo að Keflavík vann leikinn með einu marki gegn engu en með þessum sigri lyftir Keflavík sér upp úr fallsæti og í það níunda.

Af hverju vann Keflavík?

Keflavík spilaði öflugan og vel skipulagðan varnarleik gegn Leikni sem skilaði hreinu laki og því dugði eitt mark á sjöttu mínútu leiksins til sigurs.

Hverjir stóðu upp úr?

Magnús Þór Magnússon var mjög flottur í þessum leik. Magnús átti þó nokkrar flottar tæklingar og fyrirliði Keflavíkur dróg sína menn áfram í dag. Dagur Ingi lagði upp mark Keflavíkur og átti hann þó nokkrar ógnandi fyrirgjafir í dag.

Hvað gekk illa?

Máni Austmann Hilmarsson verður manna svekktastur með úrslitin í dag eftir færin tvö sem hann náði ekki að nýta undir lok leiks.

Hvað gerist næst?

Það er ekki mikil hvíld sem liðin fá á milli leikja. Næst er það 32-liða úrslit Mjólkurbikarsins hjá báðum liðum í miðri viku. Keflavík tekur á móti Breiðablik á meðan Leiknir fer í heimsókn til Valsmanna á Hlíðarenda. Næsti deildarleikur Keflavíkur er á Akranesi gegn ÍA á mánudaginn og sama dag tekur Leiknir á móti Víkingi.

„Við erum komnir á bragðið“

Eysteinn Húni og Sigurður Ragnar, þjálfarar KeflavíkurVÍSIR/HULDA MARGRÉT

Eysteinn Húni, annar af þjálfurum Keflavíkur var spurður af því í viðtali eftir leik hvort að Keflavík geti talið sig heppið að ná sigrinum í dag eftir að Leiknir klikkaði á nokkrum ákjósanlegum marktækifærum undir lok leiks.

„Við fengum mjög góð færi í byrjun leiks, eigum við eitthvað að vera að telja það?“ spurði Eysteinn á móti.

„Eigum við eitthvað að spá í því hvort við vorum heppnir eða ekki, við unnum allavegana leikinn og mér fannst það verðskuldað,“ sagði Eysteinn í viðtali eftir leik.

„Við vorum bara mjög agaðir. Leiknir stillti sínum sóknarleik þannig upp að þeir voru að spyrja okkur af mörgum spurningum með því að setja menn á milli svæða og bakverðina hátt upp. Við vorum óþolinmóðir í fyrri hálfleik og vorum ekki að ná að klukka þá. Við töluðum um það í hálfleiknum að vera þolinmóðir vegna þess að þeir sköpuðu lítið í fyrri hálfleik. Í rauninni þá þurftum við að hlaupa gríðarlega mikið, svona vanþakklát hlaup sem verða aldrei sýnt í þættinum hjá ykkur, þar sem við erum að cover-a hvorn annan. Ég held það sé það sem skilaði sigrinum, það var aginn og að menn voru að vinna í samvinnu við hvern annan.“

Keflavík spilaði flottan varnarleik í dag og Eysteinn sendir sérstakt hrós á miðverðina Magnús Þór og Ignacio Heras.

„Ef við eigum að taka einhvern út úr liðinu sem ég er ekki yfirleitt hrifinn af þá eru það hafsentarnir okkar vegna þess að Sævar Atli er frábær leikmaður sem hefur reynst okkur erfiður á undanförnum árum. Þeirra verk í dag er þess virði að þeir fái smá auka hrós.“

„Við munum nýta hópinn okkar og ætlum okkur sigur í hverjum einasta leik. Við erum komnir á bragðið og sjáum að við getum unnið leiki á móti liðunum í efstu deild og við ætlum bara að halda því áfram,“ sagði Eysteinn Húni, annar af þjálfurum Keflavíkur.

„Við vorum bara klaufar“

Þrátt fyrir að eiga ekki skot á markramma Keflavíkur fyrr en á 75. mínútu leiksins þá er Sigurður Höskuldsson, þjálfari Leiknis, ósammála því að Leiknir hafi eitthvað verið lengi að komast í gang í dag.

„Mér fannst við ekki vera lengi í gang. Mér fannst við fínir að komast upp völlinn en við vorum bara klaufar að klikka á síðustu sendingunum og að koma okkur í færin. Þetta var einhvern vegin ótrúlegasti 'næstum því' leikur sem við höfum spilað. Það voru móment þar sem boltinn er einhvern vegin að skoppa af okkur og síðasta sendingin var að klikka,“ sagði Sigurður í viðtali eftir leik.

„Við þurfum að fá fleiri færi eins og við vorum að fá undir lokin og bara halda áfram. Mér fannst við spila á mörgum köflum bara mjög vel og komum okkur í margar góðar stöður til að búa til marktækifæri en það bara datt ekki,“

Leiknir fékk einmitt fín tækifæri til að klára leikinn undir lokin. Máni Austmann fékk flott tækifæri til að jafna leikinn í tvígang undir og það var augljóst á svipbrigðum Mána að hann var í miklu uppnámi eftir í leikslok.

„Hann [Máni] var svekktur að skora ekki mark í svona dauðafæri en það er frábær staða á honum annars,“ svaraði Sigurður Höskuldsson að lokum, aðspurður út í stöðuna á Mána.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira