Íslenski boltinn

FH-ingar hafa ekki tapað fjórum leikjum í röð í 26 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Nielsen og félagar í FH hafa fengið á sig tvö mörk í þremur leikjum í röð og fengu ekki eitt einasta stig í þessum leikjum.
Gunnar Nielsen og félagar í FH hafa fengið á sig tvö mörk í þremur leikjum í röð og fengu ekki eitt einasta stig í þessum leikjum. Vísir/Hulda Margrét

FH-ingar hafa ekki unnið leik í næstum því mánuð en geta endað óvenju langa bið sína eftir sigri á móti Stjörnunni á heimavelli í Kaplakrika í kvöld klukkan 20:15.

FH hefur tapað þremur síðustu leikjum sínum í Pepsi Max deild karla sem er lengsta taphrina Hafnarfjarðarliðsins í efstu deild síðan sumarið 2003 eða í átján ár.

Það þarf að fara langt til að finna svona taphrinu hjá FH en tap í kvöld myndi þýða að við erum að fara að tala um meira en aldarfjórðung. Tapi Hafnarfjarðarliðinu fjórða leiknum í röð þá verður þetta lengsta taphrina liðsins síðan að liðið féll úr deildinni fyrir 26 árum síðan.

FH vann þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum á tímabilinu og var með tíu stig í húsi eftir fjórar umferðir. Síðan þá hefur liðið tapað á móti þremur Reykjavíkurfélögum, fyrst á móti KR (0-2), þá á móti Leikni (1-2) og loks á móti Víkingum í síðasta leik (0-2).

FH-ingar skoruðu ellefu mörk í fyrstu fjórum leikjum sínum en hafa aðeins skorað eitt mark á síðustu 270 mínútum í deildinni.

FH tapaði síðast þremur leikjum í röð í deildinni í júní og júlí 2003 og enduðu hana með markalausu jafntefli á móti Skagamönnum 17. júlí 2003. Liðið vann síðan sex af síðustu átta leikjum og náði öðru sætinu. Síðan hafði FH mest tapað tveimur deildarleikjum í röð þar til í sumar.

FH hefur síðan ekki tapað fjórum leikjum í röð síðan sumarið 1995 en það var einmitt síðasta tímabilið þar sem FH-liðið féll úr deildinni. FH var bæði með fimm leikja og sex leikja taphrinu það sumar.

Fjórir leikir fara fram í Pepsi Max deild karla í kvöld. Klukkan 18.00 mætast ÍA og KA annars vegar og Keflavík og HK hins vegar en báðir leikirnir verða í beinni á stod2.is.

Leikur FH og Stjörnunnar verður einnig í beinni á stod2.is klukkan 20.15 en leikur Vals og Breiðabliks verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4.

Upphitun hefst klukkan 19.30 en leikurinn klukkan 20.15. Pepsi Max Stúkan mun síðan gera upp alla leiki kvöldsins á sömu stöð eftir leik Vals og Breiðabliks.


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.