Erlent

Þrýstu á ráðuneyti að taka undir lygar um kosningasvik

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump heldur því fram enn þann dag í dag að kosningasvik hafi kostað hann endurkjör í nóvember. Á síðustu vikum sínum í embætti reyndi hann að fá dómsmálaráðuneytið til þess að rannsaka stoðlausar ásakanir um slík svik.
Trump heldur því fram enn þann dag í dag að kosningasvik hafi kostað hann endurkjör í nóvember. Á síðustu vikum sínum í embætti reyndi hann að fá dómsmálaráðuneytið til þess að rannsaka stoðlausar ásakanir um slík svik. AP/Patrick Semansky

Nánustu ráðgjafar Donalds Trump, þáverandi Bandaríkjaforseta, þrýstu á æðstu embættismenn í dómsmálaráðuneytinu til að fá þá til að taka undir stoðlausar ásakanir Trump um stórfelld kosningasvik. Þeir kiknuðu þó ekki undan þrýstingnum.

Gögn sem eftirlitsnefnd fulltrúardeildar Bandaríkjaþings hefur birt sýna að ráðgjafar Trump voru byrjaðir að senda Jeffrey Rosen, aðstoðardómsmálaráðherra, tölvupósta til að fá hann til að taka undir lygar Trump um kosningarnar að minnsta kosti tíu dögum áður en hann tók við sem starfandi dómsmálaráðherra eftir að William Barr tilkynnti að hann ætlaði sér að láta af embætti fyrir stjórnarskiptin.

Vildu ráðgjafarnir, þar á meðal Mark Meadows, starfsmannastjóri Hvíta hússins, að Rosen léti ráðuneytið rannsaka framandlegar ásakanir bandamanna Trump um kosningasvik sem forsetinn hélt því fram að hefði kostað sig sigurinn gegn Joe Biden.

Þetta gerðu bandamenn Trump þrátt fyrir að embættismenn tveggja ráðuneyta auk embættismanna úr Repúblikanaflokki hans sem höfðu umsjón með framkvæmd kosninga víða um landið hefðu sagt að engin svik hefðu verið í tafli. Barr sagði meðal annars að engar vísbendingar væru um svik af því tagi sem forsetinn tönglaðist á að hefðu verið framin.

Jeffrey Rosen var til skamms tíma starfandi dómsmálaráðherra eftir að William Barr lét af embætti á síðustu vikum Trump í embætti.Vísir/EPA

„Tær geðveiki“

Rosen fékk þannig tölvupósta þar sem hann var beðinn um rannsaka fjarstæðukenndar samsæriskenningar og rangindi um framkvæmd kosninganna í einstökum ríkjum. AP-fréttastofan segir að Meadows hafi meðal annars beðið hann um að kanna ásakanir um kosningasvik sem hefðu verið framin með hjálp hergervihnatta sem var stýrt frá Ítalíu.

Vildi Meadows jafnframt að Rosen fundaði með Rudy Giuliani, persónulegum lögmanni Trump, sem fór mikinn með stoðlausum ásökunum um svik eftir kosningarnar í nóvember. Bandamenn Trump höfðuðu fjölda dómsmála vegna kosninganna víða um landið en voru alls staðar gerðir afturreka með ásakanir sínar.

Í tölvupóstunum má meðal annars lesa samskipti Rosen og Rich Donoghue, næstráðanda hans í ráðuneytinu, um bón Meadows að þeir hittu Giuliani. „Tær geðveiki,“ skrifaði Donoghue.

Rosen var sammála og tók sérstaklega fram að hann hefði verið beðinn um að láta fulltrúa alríkislögreglunnar FBI hitta samstarfsmann Giuliani um ásakanir þeirra. Því hafi hann neitað og bent á að Giuliani gæti fylgt hefðbundnum leiðum til að koma ábendingum sínum á framfæri við FBI. Giuliani hafi firrst við það.

„Þegar ég var beðinn um að endurskoða það hafnaði ég því þvert, ég sagði að ég ætlaði ekki að gefa Giuliani neina sérmeðferð eða neinum af „vitnunum“ hans og ítrekaði enn og aftur að ég ætla ekki að ræða við Giuliani um neitt af þessu,“ skrifaði Rosen til Donoghue.

Vildu að ráðuneytið færi fram á ógildingu úrslita

Einhver af skeytasendingum starfsmanna Hvíta hússins til Rosen virðast hafa verið að beinu undirlagi Trump forseta. 

Daginn sem niðurstöður kjörmannaráðsins í forsetakosningunum voru staðfestar og Barr tilkynnti að hann ætlaði að láta af embætti snemma sendi starfsmaður Hvíta hússins póst til Rosen með fyrir sögninni „Frá forseta Bandaríkjanna“. Í póstinum voru tillögur að því hvernig Rosen ætti að tala um meint kosningasvik í Michigan. Alríkisdómari hafði hafnað ásökunum viku fyrr, að sögn New York Times.

Rosen, Donoghue og Jeffrey Wall, ríkislögmaður, fengu annan póst frá aðstoðarmanni í Hvíta húsinu 29. desember með drögum að greinargerð til Hæstaréttar Bandaríkjanna um að hann ætti að ógilda niðurstöður forsetakosninga í sex ríkjum þar sem Trump tapaði fyrir Biden. Einkalögmaður Trump hvatti svo háttsetta embættismenn ráðuneytisins til þess að leggja greinargerðina fram.


Tengdar fréttir

Gerir ráð fyrir að vera orðinn for­seti aftur í ágúst

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hefur sagt nokkrum fjölda fólks að hann geri ráð fyrir að verða settur aftur í embætti forseta fyrir ágúst á þessu ári. Trump tapaði forsetakosningunum í nóvember á síðasta ári fyrir Joe Biden, sem var kjörinn til fjögurra ára.

Grunaður morðingi kaus Trump í nafni týndrar eigin­konu sinnar

Maður sem grunaður er um aðild að hvarfi og mögulegu morði eiginkonu sinnar greiddi atkvæði í forsetakosningunum vestanhafs í nóvember í fyrra. Maðurinn, Barry Morphew, sagðist hafa viljað að Trump myndi vinna og hann vissi að eiginkona sín hefði kosið hann.

Óttast að ó­hefð­bundin endur­talning grafi undan trausti

Yfirmenn kjörstjórna í Bandaríkjunum óttast að ákvörðun repúblikana í Arizona um að láta telja aftur atkvæði í stærstu sýslu ríkisins frá því í kosningunum í nóvember verði að fordæmi sem grafi undan trú kjósendur á kosningum í framtíðinni. Donald Trump, fyrrverandi forseti, er sagður haldinn þráhyggju fyrir niðurstöðu endurtalningarinnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.