Innlent

Hljóp upp að gígnum í Geldinga­dölum: „Þetta er kæru­laus hegðun“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þarna sést göngumaðurinn hlaupa undan glóandi hrauninu eftir að hann gekk upp á gíginn.
Þarna sést göngumaðurinn hlaupa undan glóandi hrauninu eftir að hann gekk upp á gíginn. Twitter/@sjonni_KAUST

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, fordæmir hegðun kærulausra eldgosgesta og segist vona að enginn muni láta lífið í Geldingadölum.

Myndskeið sem náðist á vefmyndavél mbl.is af eldgosinu í Fagradalsfjalli hefur vakið nokkra athygli en þar má sjá göngumann ganga upp að gígnum, sem enn spýtir hrauni, og hlaupa svo undan hraunflæði nokkrum mínútum síðar.

„Þetta er kærulaus hegðun! Ég vona fyrir hönd allra þeirra sem hafa unnið að því að halda svæðinu opnu og öruggu, með því að gefa ráð og leggja göngustíga, að það muni enginn deyja í eldgosinu í Geldingadölum. Það ætti að vera hægt…“ skrifaði Kristín á Twitter í dag og vísaði í færslu Sigurjóns Jónssonar, þar sem eldgosgestur sést hlaupa upp gíginn á nýstorknuðu hrauni.

„Hvað ertu tilbúinn til þess að hætta miklu fyrir hina fullkomnu mynd?“ skrifar Sigurjón við færsluna sína.

Þetta er ekki fyrsta skiptið sem fólk stígur upp á storknað hraunið, jafnvel með glóandi hraun beint undir fótum sínum. Það er óhætt að segja að snerting við glóandi steininn sé stórhættulegt, enda er hraunið um 1300 gráðu heitt á Celsíus.


Tengdar fréttir

„Hann hoppaði upp á þennan stall með glóandi hraunið undir sér“

Hermann Helguson, leiðsögumaður og ljósmyndari, var staddur við gosstöðvarnar í Geldingadal rétt fyrir klukkan hálf tvö í nótt þegar hann varð vitni að því að karlmaður steig upp á hraunið sem vall úr eldfjallinu. Undir storknuðum pallinum, sem maðurinn stóð á, má sjá glóandi hraun vella fram.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×