Enski boltinn

Gaf æsku­fé­laginu sínu allan Eng­lands­meistara bónusinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ilkay Gundogan átti mikið í þessum meistaratitli Manchester City.
Ilkay Gundogan átti mikið í þessum meistaratitli Manchester City. Getty/Matt McNulty

Ilkay Gundogan átti frábært tímabil með Manchester City og hann er nú á fullu að undirbúa sig fyrir Evrópumót landsliða með þýska landsliðinu. Hann fagnaði Englandsmeistaratitlinum með City á rausnarlegan hátt.

Gundogan ákvað að gefa æskufélaginu sínu heima í Þýskalandi allan Englandsmeistarabónusinn sinn. Félagið, Hessler 06, þarf á peningnum að halda fyrir byggingu á nýjum gervigrasvelli.

Gundogan eyddi tíu árum hjá félaginu áður en hann gekk til liðs við knattspyrnuakademíu Bochum. Hann fór síðan til Nürnberg og þaðan til Borussia Dortmund árið 2011.

Það eru reyndar ekki allir miðlar sammála um hvort að þetta hafi verið bónus fyrir árangurinn í ensku úrvalsdeildinni eða fyrir að komast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar eins og Sky Sports heldur fram. Það skiptir kannski ekki öllu máli því þetta er rausnarleg gjöf hvaðan sem peningar koma.

Gervigrasvöllurinn kostar 300 þúsund evrur eða 44 milljónir íslenskra króna. Gundogan gefur félaginu nær allan þann pening.

„Án Ilkay þá hefðum við ekki getað byrjað á þessu verkefni,“ sagði Rainer Konietzka, stjórnarformaður þýska félagsins.

Ilkay Gundogan er þrítugur og hefur verið hjá Manchester City frá því í júlí 2016. Hann var því að verða enskur meistari í þriðja sinn.

Gundogan hefur aldrei skorað meira á einu tímabili í vetur en hann var með 13 mörk og 3 stoðsendingar í 28 deildarleikjum og 3 mörk og 1 stoðsendingu í 12 leikjum í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×