Erlent

Aðalmeðferð hafin vegna gröndunar MH17

Árni Sæberg skrifar
Vél Malaysia Airlines hrapaði yfir austurhluta Úkraínu eftir að skotið var á hana. Allir 298 farþegar um borð létu lífið.
Vél Malaysia Airlines hrapaði yfir austurhluta Úkraínu eftir að skotið var á hana. Allir 298 farþegar um borð létu lífið. EPA-EFE/KOEN VAN WEEL

Í gær hófst aðalmeðferð í máli hollenska ríkisins gegn fjórum sakborningum sem grunaðir eru um að hafa skotið niður Boeing 777 flugvél Flugfélags Malasíu. 

Þann 17. júlí 2014 fórst farþegaþota Flugfélags Malasíu yfir Úkraínu. Flugvélin var á leið frá Schipol flugvelli í Hollandi til Kúala Lúmpúr í Malasíu, 298 voru um borð og komst enginn lífs af. Fljótlega kom upp grunur um að flugvélin hafi verið skotin niður af herskáum stuðningsmönnum Rússlands í Úkraínu.

Hollenska ríkið ákvað að sækja þá sem ábyrgir eru fyrir gröndun vélarinnar til sakar þar sem meirihluti farþega hennar voru hollenskir ríkisborgarar. Undir venjulegum kringumstæðum ætti mál af þessu tagi að fara fyrir Alþjóðasakadómstólinn í Haag. Hins vegar beittu Rússar neitunarvaldi sínu, sem fastasæti þeirra í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna veitir þeim, til að koma í veg fyrir að dómstóllinn tæki málið fyrir.

Sakborningar verða ekki viðstaddir

Rannsóknarnefnd, skipuð fulltrúum þeirra landa hverra ríkisborgarar létust þegar flugi MH17 var grandað, hefur borið kennsl á sakborningana fjóra. Þrír þeirra eru rússneskir, Oleg Pulatov, Igor Girkin og Sergei Dubinsky, en einn er úkraínskur, Leonid Kharchenko.

Sakborningarnir eru ekki viðstaddir réttarhöldin og aðeins einn þeirra, Pulatov, heldur uppi vörnum í málinu. Hann neitar alfarið sök. 

Aðalmeðferðin sem hófst í gær mun einungis felast í yfirferð sönnunargagna enda er hvorki hægt að taka skýrslur af vitnum né sakborningum. Fjölskyldum fórnarlambanna verður gefið tækifæri til að ávarpa dómstólinn í september.

 

 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×