Erlent

Skoða að fjölga frambjóðendum fyrir forsetakosningarnar í Íran

Kjartan Kjartansson skrifar
Ali Khamenei, æðstiklerkur og æðsti leiðtogi Írans, skipaði varðamannaráðinu að fara aftur yfir frambjóðendur sem það hafnaði.
Ali Khamenei, æðstiklerkur og æðsti leiðtogi Írans, skipaði varðamannaráðinu að fara aftur yfir frambjóðendur sem það hafnaði. Vísir/EPA

Sérstök kjörnefnd sem fer yfir hæfi forsetaframbjóðenda í Íran segist ætla að endurskoða ákvörðun sína um að hafna nokkrum þekktum frambjóðendum. Rouhani forseti er á meðal þeirra sem hafa mótmælt fákeppni í frambjóðendahópnum.

Svonefnt varðmannaráð sem metur hvort að frambjóðendur séu nægilega hollir írönsku byltingunni bannaði Mahmoud Ahmadinejad, fyrrverandi forseta, Eshaq Jahangiri, varaforseta, og Ali Larijani, fyrrverandi þingforseta, að bjóða sig fram í síðustu viku. Ali Khamenei, æðsti klerkur og leiðtogi Íran, skipaði helming fulltrúa í ráðinu.

Eftir stóð Ebrahim Raisi, forseti hæstaréttar sem er talinn forsetaefni Khamenei auk nokkurra annarra harðlínumanna á bandi leiðtogans og léttvigtarmanna. Virtist leiðin því hafa verið rudd til að Raisi ynni auðveldan sigur.

Hassan Rouhani, forseti, skrifaði Khamenei bréf til að mótmæla ákvörðuninni um að vísa frambjóðendum sem gætu ógnað Raisi frá. Rouhani er sjálfur ekki kjörgengur vegna ákvæða í stjórnarskrá um hversu lengi forseti getur setið í embætti.

Reuters-fréttastofan segir að varðamannaráðið hafi gefið frá sér yfirlýsingu í dag þar sem kom fram að það ætlaði sér að fara aftur yfir þá frambjóðendur sem það taldi ekki hæfa til að bjóða sig fram. Khamenei hafi hlutast til um það og ákvarðanir hans væru endanlegar.

„Varðmannaráðið mun brátt kynna álit sitt og viðurkenna að það er ekki óskeikult,“ sagði talsmaður ráðsins.

Kosningarnar fara fram 18. júní en kannanir benda til þess að kjörsókn verði dræm. Margir kjósendur eru sagðir áhugalausir þar sem að úrslit kosninganna virðist ráðin fyrir fram.


Tengdar fréttir

Ahmadinejad aftur í forsetaframboð

Mahmoud Ahmadinejad, fyrrverandi forseti Írans, hefur skráð sig í framboð að nýju fyrir forsetakosningar sem fara fram í júní. Í forsetatíð sinni var Ahmadinejad þekktur sem harðlínumaður en hefur undanfarið reynt að hasla sér völl sem miðjumaður og verið gagnrýninn á klerkastjórnina.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.