Íslenski boltinn

Dramatík í Mos­fells­bæ og á Sel­tjarnar­nesi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pétur Theódór [fyrir miðju] og Björn Guðjónsson [til vinstri] skoruðu mörk Gróttu í kvöld.
Pétur Theódór [fyrir miðju] og Björn Guðjónsson [til vinstri] skoruðu mörk Gróttu í kvöld. Eyjólfur Garðarson

Þrír leikir fóru fram í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld. Mikill hiti var í tveimur af þremur leikjum kvöldsins.

Aron Jóhannsson tryggði Grindavík 1-0 sigur á Selfyssingum með marki um miðbik síðari hálfleiks. Sá leikur var rólegastur af leikjunum þremur.

Í Mosfellsbæ var Fjölnir í heimsókn. Elmar Kári Enesson Cogic kom heimamönnum yfir á 7. mínútu leiksins. Staðan 1-0 í hálfleik. Georg Bjarnason kom heimamönnum í 2-0 á 65. mínútu og þannig var staðan enn þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

Valdimar Jónsson minnkaði muninn á 86. mínútu og Jóhann Gunnarsson jafnaði metin í 2-2 þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma með marki úr vítaspyrnu.

Lokatölur 2-2 en það sauð upp úr eftir að leikurinn var flautaður af. Það sauð allt upp úr í lokin, Sindri Þór Sigþórsson - varamarkvörður Aftureldingar - fékk rautt og dómarar leiksins fengu að heyra það í leikslok.

Á Seltjarnarnesi var það sama upp á teningnum þar sem Þróttur Reykjavík var í heimsókn. Pétur Theódór Árnason kom Gróttu í 1-0 og Björn Guðjónsson tvöfaldaði forystuna áður en fyrri hálfleikur var úti. Staðan 2-0 í hálfleik en á 74. mínútu fékk Halldór Kristján Baldursson rautt spjald í liði heimamanna og það nýttu Þróttarar sér.

Sam Ford minnkaði muninn á 76. mínútu og jafnaði átta mínútum síðar. Lokatölur 2-2 á Seltjarnarnesi.

Fjölnir eru í 2. sæti deildarinnar með 10 stig eftir leiki kvöldsins. Grindavík kemur þar á eftr með 9 stig og Grótta þar á eftir með 8 stig. Afturelding er með 5 stig í 9. sæti, Þróttur R. í 10. sæti með fjögur stig líkt og Selfoss sem er með lakari markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×