Íslenski boltinn

Fram ræður yfir­mann knatt­spyrnu­mála

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aðalsteinn er hér ásamt Ásgrími Helga Einarssyni, formanni Knattspyrnudeildar Fram.
Aðalsteinn er hér ásamt Ásgrími Helga Einarssyni, formanni Knattspyrnudeildar Fram. Fram

Knattspyrnudeild Fram staðfesti í dag að frá og með 1. ágúst myndi Aðalsteinn Aðalsteinsson taka við stöðu yfirmanns knattspyrnumála hjá félaginu. 

Aðalsteinn starfar í dag sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla sem leikur í næst efstu deild, Lengjudeildinni.

Hinn 59 ára gamli Aðalsteinn á langan feril að baki en hann varð til að mynda Íslandsmeistari með Víkingum árin 1981 og 1982. Hann lék með Völsungi þau tvö ár sem félagið lék í efstu deild árin 1987 og 1988.

Aðalsteinn var einnig spilandi þjálfari Leifturs árið 1991, Völsungs 1993-1994 og Sindra 1997. Þá lék hann einnig fjóra A-landsleiki á sínum tíma sem og fimm leiki með U-21 árs landsliðinu þar á undan.

Aðalsteinn er öllum hnútum kunnugur hjá Fram en hann hefur þjálfað þar frá árinu 2009. Þá er sonur hans, Arnór Daði Aðalsteinsson, í meistaraflokki félagsins.

Hlutverk Aðalsteins mun vera að hafa umsjón með afrekshluta starfsins, koma að samningamálum þjálfar sem og leikmanna ásamt því að móta starf yngri flokka félagsins. Einnig mun hann hafa yfirumsjón með faglega hlutanum í rekstri knattspyrnudeildar Fram.

„Það er mikill fengur fyrir Fram að fá Aðalstein í þetta starf og hlökkum við til samstarfsins á komandi árum,“ segir í yfirlýsingu Fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×