Erlent

Biden stendur þétt við bakið á hinsegin fólki í upphafi Pride-mánaðarins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Biden ætlar að verða töluvert ötulli stuðningsmaður hinsegin fólks en forveri hans í embætti.
Biden ætlar að verða töluvert ötulli stuðningsmaður hinsegin fólks en forveri hans í embætti.

„Við sjáum ykkur, við styðjum ykkur og við drögum innblástur af hugrekki  ykkar til að sætta ykkur ekki við neitt annað en fullt jafnrétti,“ sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti í yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu og samfélagsmiðlum Hvíta hússins í gær.

Júní er Pride-mánuður í Bandaríkjunum, mánuður hinsegin hátíða, og óhætt að segja að nú kveði við annan tón en þegar Donald Trump sat í Hvíta húsinu. 

Biden sagðist í yfirlýsingunni ekki munu una sér hvíldar fyrr en hinsegin fólk nyti jafnréttis fyrir lögunum og verndar á við aðra minnihlutahópa.

„Pride er bæði gleðilegur samfélagslegur fögnuður sýnileika og persónulegur fögnuður sjálfvirðingar og reisnar,“ sagði forsetinn meðal annars. 

Hann sagði Pride-mánuðinn tilefni til að fagna dýrmætt framlag hinsegin fólks til samfélagsins og staðfesta skuldbindingu þjóðarinnar til að standa með hinsegin löndum sínum í baráttu þeirra gegn óréttlæti.

Í yfirlýsingunni kemur fram að um 14 prósent allra þeirra sem Biden hefur skipað í hinar ýmsu stöður séu hinsegin og sérstaklega minnst á Pete Buttigieg, sem er fyrsti hinsegin ráðherra Bandaríkjanna, og Rachel Levine, aðstoðarheilbrigðisráðherra, sem er fyrsta transmanneskjan hvers útnefning er samþykkt af öldungadeildinni.

Biden minnist þess þó einnig að björninn sé ekki unninn; til dæmis hafi nokkur ríki Bandaríkjanna fest mismunun gegn trans ungmennum í lög. Þess má geta í þessu samhengi að Flórída varð í gær áttunda ríkið sem bannar trans stúlkum og konum í framhalds- og háskólum að spila með kvennaliðum í íþróttum.

Biden sagði Pride-mánuðinn tilefni til að standa með hinsegin fólki, sem væri að berjast fyrir því að fá að lifa eins og það vildi. Barátta þeirra hefði „opnað hjörtu og huga“ þjóðarinnar og lagt grunn að réttlátari Bandaríkjum.

„Ég biðla til íbúa Bandaríkjanna að viðurkenna það sem hinsegin samfélagið hefur áorkað, að fagna hinum mikla fjölbreytilega bandarísku þjóðarinnar og til að halda hinsegin fánanum hátt á lofti.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×