Erlent

Bandarísk sendiráð mega aftur draga regnbogafánann að hún

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Von er á Blinken til Íslands í maí.
Von er á Blinken til Íslands í maí.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur heimilað sendiráðum og -skrifstofum um allan heim að draga regnbogafánann að hún til að styðja samfélag hinsegin fólks.

Foreign Policy hefur undir höndum skilaboð sem send voru á bandaríska diplómata um heim allan þar sem utanríkisráðherrann heimilaði þeim að flagga regnbogafánanum. Ekki er um eiginlega tilskipun að ræða heldur heimild en hún berst í tæka tíð fyrir alþjóðlegan dag gegn fordómum gegn hinsegin fólki, 17. maí.

Í erindinu er tekið fram að það sé undir hverjum og einum sendifulltrúa hvort hann velur að draga regnbogafánann og aðra áþekka fána að hún og er viðkomandi treyst fyrir því að meta það útfrá aðstæðum á hverjum stað.

Þegar Donald Trump var forseti og Mike Pompeo utanríkisráðherra, var sendiráðum og -skrifstofum bannað að draga regnbogafánann að hún á sömu flaggstöngum og notaðar voru fyrir bandaríska fánann.

Varaforsetinn Mike Pence sagði að þegar kæmi að bandarískum flaggstöngum og bandarískum sendiráðum þá væri aðeins einn bandarískur fáni dreginn að hún.

Þegar Blinken mætti fyrir þingheim áður en hann var skipaður í embætti hét hann því að beita sér í þágu hinsegin fólks og skipa sérlegan sendifulltrúa stjórnvalda í málefnum þeirra.


Tengdar fréttir

Höfði stendur þeim Blinken og Lavrov til boða

„Þessar fréttir eru nýtilkomnar og eru mikið gleðiefni,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra um staðfesta komu utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Rússlands hingað til lands í maí.

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna staðfestir fyrirhugaða Íslandsheimsókn

Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur staðfest komu sína til Íslands í maí hvar hann mun sækja fund aðildarríkja Norðurskautsráðsins. Þetta staðfesti Blinken í ræðu sem hann flutti í kvöld þar sem meginviðfangsefnið var um forystuhlutverk Bandaríkjanna í loftslagsmálum.

Ráðherrar mætast fyrst í Reykjavík

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, mun ferðast til Íslands í næsta mánuði. Þá mun hann leiða sendinefnd Rússa á fundi Norðurskautsráðsins í Reykjavík og taka við formennsku í ráðinu til næstu tveggja ára.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×