Íslenski boltinn

Fengu í gær á sig 71 prósent af mörkunum sem voru skoruð á þau allt síðasta tímabil

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tiffany Janea Mc Carty skoraði tvö mörk fyrir Blika í gær en hér er hún í gæslu Valskonunnar Örnu Eiríksdóttur í leiknum í gær.
Tiffany Janea Mc Carty skoraði tvö mörk fyrir Blika í gær en hér er hún í gæslu Valskonunnar Örnu Eiríksdóttur í leiknum í gær. Vísir/Elín Björg

Breiðablik vann Val í gær í tíu marka toppleik í Pepsi Max deildinni í fótbolta en Blikastúlkur fögnuðu þar sigri í þriðja leiknum í röð í uppgjöri Íslandsmeistara síðustu ár.

Breiðablik vann báða leiki liðanna í fyrrasumar og hélt taki sínu á Valskonum á Hlíðarenda í gær. Leikurinn var hins vegar allt öðru vísi en flestir bjuggust við enda var boðið í mikla markaveislu.

Breiðablik skoraði sjö mörk á Val í leiknum og Valskonur svöruðu með því að skora þrjú mörk á Blika.

Þetta var næstum því jafnmörg mörk og voru skoruð á þessi tvö lið allt síðasta sumar.

Blikar fengu á sig 3 mörk í 15 leikjum allt síðasta sumar eða jafnmörg mörk og á 90 mínútunum á Hlíðarenda í gær.

Valskonur fengu á sig ellefu mörk í sextán leikjum í fyrra þar af fimm þeirra í tveimur leikjum við Blika.

Liðin fengu því samtals aðeins á sig fjórtán mörk allt síðasta sumar en sóttu boltann tíu sinnum í markið í gær.

Breiðablik og Valur fengu því í gær á sig 71 prósent af mörkunum sem voru skoruð á þau í Pepsi Max deildinni allt síðasta tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×