Íslenski boltinn

Bjóst ekki við þessu þegar ég vaknaði í morgun

Andri Gíslason skrifar
Áslaug Munda var frábær í liði Breiðabliks í kvöld.
Áslaug Munda var frábær í liði Breiðabliks í kvöld. Vísir/Bára

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir var að vonum virkilega ánægð með stórsigurinn á Val fyrr í kvöld. 

Breiðablik heimsótti Hlíðarenda í uppgjöri Íslandsmeistara síðustu tveggja ára í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu. Blikar eru ríkjandi meistarar og þó liðið hafi misst marga sterka leikmenn í vetur - líkt og Valur - þá minntu þær land og þjóð heldur betur á af hverju þær eru handhafar þess stóra. 

Lokatölur á Hlíðarenda 7-3 Blikum í vil og segja má að um einhvern ótrúlegasta leik síðari ára sé um að ræða. 

„Þegar ég vaknaði í morgun var ég ekki alveg búin að spá fyrir þessu en þetta var frábært og bara ótrúlega gaman.“

Valsstúlkur skildu eftir ansi mikið pláss á hægri kantinum í fyrri hálfleiknum þar sem Áslaug Munda spilaði framan af leik og var hún dugleg við að valda usla í vítateig Vals.

„Það er mjög gaman að fá allt þetta pláss og þá getur maður bara haldið áfram að hlaupa eins og maður vill. Ég skildi ekki alveg af hverju það var svo en ég hafði bara mjög gaman af og nýtti mér það.“

Blikar komust í 7-1 en slökuðu síðan aðeins á þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum.

„Það var svolítið eins og við héldum að leikurinn væri búinn þó það væri nóg eftir sem er ekki gott en við bætum það bara því það getur komið í bakið á okkur.“


Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×