Erlent

Al­var­legur súr­efnis­skortur yfir­vofandi víða

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Heilbrigðisstarfsfólk að störfum í Mumbai á Indlandi. Mikill skortur er á súrefni fyrir Covid-sjúklinga þar í landi.
Heilbrigðisstarfsfólk að störfum í Mumbai á Indlandi. Mikill skortur er á súrefni fyrir Covid-sjúklinga þar í landi. EPA/Divyakant Solanki

Skortur á súrefni fyrir kórónuveirusjúklinga er yfirvofandi í tugum ríkja. Þúsundir hafa dáið vegna súrefnisskorts á Indlandi.

Þótt nýgengi smita á Indlandi fari nú lækkandi deyja enn þúsundir dag hvern af völdum Covid-19. Súrefnisskorturinn í landinu hefur takmarkað getu heilbrigðiskerfisins til að hjálpa sjúklingum og þörfin fór hratt vaxandi. Um miðjan maí þurftu Indverjar fjórtánfalt meira súrefni fyrir Covid-sjúklinga en í mars og allur útflutningur súrefniskúta var bannaður.

Útlit er fyrir sams konar þróun í fjölda ríkja, einkum grannríkjum Indlands. Umfjöllun samtakanna Bureau of Investigative Journalism leiddi í ljós áhyggjur sérfræðinga af stöðunni í Pakistan, Nepal, Bangladess, Srí Lanka og Mjanmar en ríkin reiða sig að miklu leyti á indverska súrefniskúta og annan búnað. Súrefnisþörfin í Nepal hefur til að mynda hundraðfaldast frá því í mars.

Vandinn er þó ekki bundinn við nágrannaríki Indlands. Í Suður-Afríku, Íran, Filippseyjum, Kosta Ríku og Úkraínu fer þörfin hratt vaxandi en súrefni er afar mikilvægt í meðhöndlun Covid-19.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.Vísir/Vilhelm

„Þetta er náttúrulega fyrst og fremst lungnasjúkdómur sem gerir það að verkum að súrefni lækkar í blóðinu þegar fólk veikist vegna bólgu í lungunum. Þess vegna er mikilvægt að geta gefið meira súrefni en þú færð úr venjulegu andrúmslofti til að viðhalda venjulegu súrefnismagni og súrefnisstyrkleika í blóðinu,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Þess vegna sé mjög mikilvægt að eiga súrefnisbirgðir og geta gefið auka súrefni. Enginn skortur sé yfirvofandi hér á landi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.