Íslenski boltinn

Draga fimm leikja bann til baka

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki.
Myndin tengist fréttinni ekki. Vísir/Daníel Þór

Áfrýjunardómstóll KSÍ hefur fellt úr gildi úrskurð aga- og úrskurðarnefndar í máli þar sem leikmanni var gert að sæta leikbanni í fimm leiki í keppnum á vegum KSÍ og banni frá Dalvíkurvelli á meðan bannið varir.

Þá var sekt knattspyrnudeildar Magna samkvæmt úrskurðinum einnig felld úr gildi. Þetta kemur fram á vef KSÍ.

„Í hinum áfrýjaða úrskurði byggir niðurstaða aga- og úrskurðarnefndar meðal annars á skýrslu dómara þar sem atvikum er lýst sem dómari verður ekki vitni að. Í skýrslunni eru leiddar líkur að því leikmaður Magna hafi sagt eitthvað rasískt við leikmann Aftureldingar án þess þó að fyrir liggi með óyggjandi hætti hver meint ummæli hafi í raun verið. Þá er framkoma leikmannsins hörmuð í greinargerð sem barst frá knattspyrnudeild Magna án þess að vitnað sé til brotlegra ummæla leikmanns auk þess sem fram kemur að forráðamenn knattspyrnudeildar Magna, er rita greinargerðina, voru ekki á umræddum leik og urðu því ekki vitni að atvikinu,“ segir í úrskurðinum.

Leikmaðurinn sjálfur neitar að hafa látið téð ummæli falla í þeim orðaskiptum er urðu á milli hans og leikmanns Aftureldingar. Hann viðurkenndi þó óíþróttamannslega framkomu af sinni hálfu.

„Það er mat dómsins að ekki liggi fyrir í gögnum málsins óyggjandi staðfesting á því hvaða orð leikmaður Magna lét falla við leikmann Aftureldingar enda kemur fram í skýrslu dómara að dómari varð ekki vitni að þeim orðaskiptum,“ segir einnig í úrskurði KSÍ.

„Dómurinn byggir sönnunarmat sitt á skýrslu dómara og öðrum þeim gögnum sem fram hafa verið lögð í málinu og með hliðsjón af þeim telur dómurinn ekki fullnægjandi sannað að leikmaðurinn hafi viðhaft þau ummæli sem vísað er til í skýrslu dómara og verður hann því ekki talinn hafa gerst brotlegur.“

Dóminn má lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×