Umfjöllun og viðtöl: Víkingur - Fylkir 2-2 | Nikulás bjargaði sárum Fylkismönnum

Sindri Sverrisson skrifar
visir-img
vísir/hulda margrét

Víkingur R. og Fylkir gerðu 2-2 jafntefli í Fossvogi í kvöld í leik þar sem fjörið var langmest á lokamínútunum. Þar með mistókst Víkingum að komast aftur á topp Pepsi Max-deildar karla í fótbolta.

Fylkir var 1-0 yfir í hálfleik eftir að Djair Parfitt-Williams skoraði mark þvert gegn gangi leiksins.

Víkingum gekk illa að skapa sér færi í seinni hálfleiknum en náðu loks að jafna metin þegar Nikolaj Hansen skoraði á 81. mínútu.

Víkingar komust svo yfir þegar Fylkismenn voru manni færri, eftir að Dagur Dan Þórhallsson og Halldór Smári Sigurðsson skullu með höfuðin saman. Fylkismenn voru brjálaðir yfir því að Víkingar skildu ekki stoppa leikinn svo að þeir gætu skipt manni inn á fyrir Dag og kvörtuðu sáran.

Þjálfarar gestanna voru enn að kvarta þegar Nikulás Val Gunnarsson bjargaði þeim um stig með afar laglegum skalla undir lokin.

Einum of heiðarlegt ef Víkingar hefðu sparkað boltanum út af

Víkingar hafa eflaust verið svekktir að vera ekki yfir, og hvað þá undir, þegar flautað var til hálfleiks. Þeir höfðu verið betri og markið sem Parfitt-Williams skoraði virtist í raun fyrirgjöf sem Nikolaj Hansen hjálpaði óvart að komast alla leið í markið með léttum skalla.

Markið virtist gefa Fylkismönnum kraft inn í seinni hálfleikinn en skiptingar Arnars Gunnlaugssonar um miðjan seinni hálfleik breyttu gangi leiksins. Pablo Punyed, sem væntanlega hefur þurft hvíld, Helgi Guðjónsson og Logi Tómasson hleyptu lífi í sóknarleikinn en jöfnunarmarkið kom ekki fyrr en tíu mínútum fyrir leikslok þegar Hansen, sem hafði lítið sést í leiknum, var á réttum stað og skoraði.

Ég get ekki sett út á það að Víkingar skildu halda leik áfram eftir höfuðmeiðsli Dags, sem fluttur var með sjúkrabíl af velli eftir leik og vankaðist greinilega við viðskipti sín við Halldór Smára. Það hefði verið einum of heiðarlegt af Víkingum, sem voru í leit að sigurmarki og vildu nýta allar þær sekúndur sem þeir höfðu, kannski öfugt við Fylkismenn.

Mark Helga var laglegt en þjálfarar Fylkis höfðu einnig skipt öflugum leikmönnum inn á sem sáu til þess að lokaniðurstaðan varð jafntefli. Nikulás fann pláss í teignum, innan um turnana Kára Árnason og Halldór Smára, til að skalla boltann úr erfiðri stöðu eftir fyrirgjöf Birkis Eyþórssonar sem lék sinn fyrsta leik eftir heimkomuna úr bandaríska háskólaboltanum.

Af hverju gerðu liðin jafntefli?

Hvorugt þeirra gerði nóg til að verðskulda sigur í kvöld. Víkingar voru nær því en sváfu á verðinum undir lok fyrri hálfleiks og þurftu að bíta úr nálinni með það. Þegar þeir höfðu svo náð forystunni seint í leiknum fundu varamenn Fylkis leið til að jafna metin og sjá til þess að góð barátta liðsins allan leikinn fór ekki fyrir bí.

Hverjir stóðu upp úr?

Það er erfitt að segja að einhverjir hafi staðið upp úr í þessum kaflaskipta leik. Helgi Valur Daníelsson var þó afar vinnusamur á miðjunni hjá Fylki ásamt Arnóri Gauta Jónssyni og miðvarðapar Fylkis lét Hansen hverfa, þar til að hann birtist allt í einu eftir fast leikatriði á ögurstundu. Víkingar voru talsvert skeinuhættari eftir að Pablo og Helgi mættu til leiks og Júlíus Magnússon hafði góð tök á tveggja marka manni Fylkis í síðustu umferð, Orra Hrafni Kjartanssyni.

Hvað gekk illa?

Víkingar fengu átta hornspyrnur í fyrri hálfleik og með einn Kára Árnason í teignum, auk Halldórs Smára, Hansen og fleiri, hefði liðið átt að geta nýtt það betur. Kári átti þó einn skalla í þverslá.

Fylkismenn stóluðu á að Þórður Gunnar Hafþórsson gæti stungið miðverði Víkings af en þeir áttu ekki í vandræðum með að halda honum niðri og á mjög löngum köflum kom ekkert út úr sóknarleik gestanna.

Hvað gerist næst?

Það er spurning hvenær Víkignar spila sinn næsta leik þar sem að líklegt er að leik Vals og Víkings á laugardag verði frestað, jafnvel þó að Kári hafi nú dregið sig út úr landsliðshópnum. Fylkismenn eiga næst leik við Stjörnuna á sunnudagskvöld í Árbænum.

Atli Sveinn: Hefðum alveg getað látið hann liggja

„Við missum mann út af vegna höfuðhöggs og erum að reyna að ná skiptingu en svo skora þeir 2-1 markið þegar að við erum manni færri. Þarna hefðum við viljað stoppa leikinn,“ sagði Atli Sveinn Þórarinsson, annar þjálfara Fylkis, en þeir létu vel í sér heyra eftir að Víkingar komust yfir þegar Dagur Dan Þórhallsson var óvígur utan vallar.

„Við hefðum alveg getað látið hann liggja inni á vellinum og það var kannski aulaskapur af okkur að gera það ekki. Við ætluðum að hjálpa stráknum því hann er með heilahristing. Þetta pirraði mig,“ sagði Atli Sveinn, óánægður með að Víkingar skildu ekki gefa færi á að framkvæma skiptingu.

Fylkismenn náðu þó að jafna metin eins og fyrr segir, undir lokin:

„Þetta var frábært mark. Við vorum búnir að vera í pínu „pásu“ og ætluðum bara að halda þetta út, ekki búnir að spila neitt ofboðslega mikinn fótbolta. En við settum í smágír, það fauk aðeins í okkur við þetta [mark Víkinga á meðan Fylkir var manni færri] en auðvitað ætluðum við okkur að ná fleiri svona spilköflum. Við náðum einum og það skilaði marki.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira