Erlent

Myndir af týndu prinsessunni af Dubai taldar merki um lífs­mark

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Latifa prinsessa er talin vera hér fyrir miðju. Óvíst er hvenær myndin var tekin en talið er að hún sé ekki mikið eldri en frá 13. maí 2021. Nöfn kvennanna tveggja sem sitja með henni hafa ekki verið birt.
Latifa prinsessa er talin vera hér fyrir miðju. Óvíst er hvenær myndin var tekin en talið er að hún sé ekki mikið eldri en frá 13. maí 2021. Nöfn kvennanna tveggja sem sitja með henni hafa ekki verið birt. Instagram

Mynd af þremur konum, sem birt var á tveimur Instagram-síðum í vikunni, hefur vakið mikla athygli en hún virðist sýna Latifu prinsessu af Dubai. Það sem merkilegt er við myndina er að hvorki hefur heyrst né sést til Latifu í marga mánuði.

Latifa prinsessa er dóttir Mohammed bin Rashid Al Maktoum, sjeiks af Dubai, en hún hefur verið mikið til umræðu undanfarið. Ástæða þess er að um miðjan febrúar birti breska ríkisútvarpið myndbandsupptöku af prinsessunni, sem hún tók sjálf upp, þar sem hún segir að sér sé haldið fanginni og að hún hræðist að líf hennar sé í hættu.

Hún sagði einnig að sér væri haldið í einangrun, hún hefði engan aðgang að læknis- eða lögfræðiaðstoð og að sér væri haldið í einbýlishúsi þar sem búið væri að byrgja fyrir alla glugga og dyr og að sín væri gætt af lögreglu.

Ekki hefur tekist að staðfesta að um Latifu sé að ræða á myndinni en vinkona hennar hefur hins vegar sagt að Latifa sé sú sem er á myndinni.

Myndin ekki talin eldri en frá 13. maí 2021

Myndin virðist sýna Latifu í verslunarmiðstöð í Dubai með tveimur öðrum konum. Vinir Latifu hafa sagt í samtali við breska ríkisútvarpið að þær þekki konurnar tvær og að Latifa þekki þær líka.

Myndin var birt á Instagram en þar er hvorki hægt að sjá hvenær nákvæmlega og hvar myndin var tekin. Á henni sést hins vegar auglýsing fyrir myndina Demon Slayer: Mugen Train, sem var frumsýnd í Sameinuðu arabísku furstadæmunum 13. maí síðastliðinn.

Báðar konurnar sem eru á myndinni með Latifu birtu myndina á Instagram-síðum sínum en þær hafa ekki brugðist við óskum BBC um að tjá sig um myndina.

Önnur konan birti hins vegar aðra mynd á Instagram í gær en Latifa virðist einnig vera á þeirri mynd.

Hér má sjá seinni myndina sem birt var á Instagram og talin er vera af Latifu.Instagram

„Góður matur á Bice Mare með Latifu áðan,“ segir í myndatextanum sem fylgir þeirri mynd. Bice Mare er veitingastaður í Dubai.

Reyndi að flýja en var flutt aftur heim

Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa ekki tjáð sig um myndirnar. Í yfirlýsingu frá þeim sem gefin var út í febrúar sagði hins vegar að Latifa væri heima hjá sér.

Sjeik Mohammed bin Rashid Al Maktoum, er talinn hafa rænt dætrum sínum og hótað eiginkonu sinni.EPA-EFE/FARES GHAITH

Latifa er ein 25 barna al Maktoum en hún gerði tilraun til þess að flýja Dubai í febrúar 2018. Í myndbandi sem hún tók upp stuttu áður en hún lagði af stað sagði hún að líf hennar hafi verið mjög takmarkað.

„Ég hef ekki farið úr landi síðan 2000. Ég hef beðið oft um það að fá að ferðast, að fá að fara í skóla, að fá að gera eitthvað eðlilegt. Þau leyfa mér það ekki,“ sagði hún.

Flóttatilraunin tókst hins vegar ekki og eftir átta daga ferð yfir Indlandshaf á báti náði skyndiárásarsveit Dubai í skottið á henni. Sveitin flutti hana aftur til Dubai.

Faðir hennar sagði síðar að hann hafi litið á þetta sem björgunaraðgerðir.


Tengdar fréttir

Sameinuðu þjóðirnar fá engin svör vegna týndu prinsessunnar

Tveimur vikum eftir að Sameinuðu þjóðirnar báðu um sannanir fyrir því að dóttir ráðanda Dubaí væri á lífi, hafa þær ekki borist. Dóttirin, prinsessan Latifa Al Maktoum, hefur undanfarin ár gengið undir nafninu „Týnda prinsessan“.

Vilja sannanir fyrir því að týnda prinsessan sé á lífi

Konungsfjölskyldan í Sameinuðu arabísku furstadæmunum hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fullyrt er að prinsessan Latifa Al Maktoum, dóttir Mohammed bin Rashid, forsætisráðherra Sameinuðu arabíska furstadæmanna, sé í góðu yfirlæti heima hjá sér. Breska ríkisútvarpið greindi frá því fyrr í vikunni að faðir hennar héldi henni í gíslingu og að hún óttaðist um líf sitt.

Týnda prinsessan fékk ekki að fara út né opna glugga

Prinsessan Latifa Al Maktoum, dóttir Mohammed bin Rashid Al Maktoum, varaforseta og forsætisráðherra Sameinuðu arabíska furstadæmanna, sem reyndi að flýja landið árið 2018, hefur sent frá sér skilaboð þar sem hún segir föður sinn halda sér í gíslingu og hún óttist um líf sitt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×