Erlent

Vilja sannanir fyrir því að týnda prinsessan sé á lífi

Sylvía Hall skrifar
Prinsessan Sheikha Latifa árið 2018, skömmu áður en hún reyndi að flýja frá Dubai öðru sinni.
Prinsessan Sheikha Latifa árið 2018, skömmu áður en hún reyndi að flýja frá Dubai öðru sinni.

Konungsfjölskyldan í Sameinuðu arabísku furstadæmunum hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fullyrt er að prinsessan Latifa Al Maktoum, dóttir Mohammed bin Rashid, forsætisráðherra Sameinuðu arabíska furstadæmanna, sé í góðu yfirlæti heima hjá sér. Breska ríkisútvarpið greindi frá því fyrr í vikunni að faðir hennar héldi henni í gíslingu og að hún óttaðist um líf sitt.

Þetta kom fram í skilaboðum sem hún sendi til vina sinna, sem síðan deildu þeim með BBC. Hún segir að þegar hún reyndi að flýja land árið 2018 hafi sérsveitarmenn sigið úr þyrlu um borð í bát hennar undan ströndum Indlands, gefið henni deyfilyf og flutt hana aftur í land.

Vinirnir fóru að hafa áhyggjur eftir að skilaboðin hættu að berast og leituðu því til fjölmiðla. Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur farið fram á það að Sameinuðu arabísku furstadæmin sanni það að prinsessan sé enn á lífi.

Engar sannanir hafa borist þrátt fyrir yfirlýsinguna sem fjölskyldan sendi frá sér. Engar myndir fylgdu með henni og engar upplýsingar sem gátu sagt til um hvort Latifa væri enn á lífi, en hún flúði í mars árið 2018 eftir að hafa skipulagt flótta í sjö ár.

„Vegna fjölmiðlaumfjöllunar um Sheikha Latifa viljum við þakka þeim sem hafa lýst yfir áhyggjum af velferð hennar, þrátt fyrir það að umfjöllunin endurspegli ekki raunverulegar aðstæður hennar,“ sagði í yfirlýsingunni.

Kenneth Roth, yfirmaður hjá Human Rights Watch, segir yfirlýsingu fjölskyldunnar yfirvarp og að hún sé ekki trúanleg fyrr en Latifa sjálf fái frelsi til að tjá sig og þar með sanna að hún sé á lífi.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×