Íslenski boltinn

„Þetta er ekkert annað en vítaspyrna“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valsmaðurinn Johannes Vall togar í treyju KR-ingsins Stefáns Árna Geirssonar.
Valsmaðurinn Johannes Vall togar í treyju KR-ingsins Stefáns Árna Geirssonar. stöð 2 sport

Pálmi Rafn Pálmason skoraði annað mark KR í 2-3 tapinu fyrir Val í gær úr vítaspyrnu á 68. mínútu. Sérfræðingar Pepsi Max Stúkunnar voru á því að KR-ingar hefðu átt að fá annað víti sex mínútum áður.

Á 59. mínútu kom Kjartan Henry Finnbogason inn á sem varamaður í sínum fyrsta leik fyrir KR í sjö ár. Þremur mínútum síðar átti hann skalla eftir hornspyrnu sem Hannes Þór Halldórsson varði.

Stefán Árni Geirsson reyndi að ná frákastinu en Johannes Vall togaði í treyju hans og hann náði ekki almennilegu skoti. Þeir Atli Viðar Björnsson og Jón Þór Hauksson voru sammála um að Pétur Guðmundsson hefði átt að dæma víti á Vall.

„Fyrir mér er þetta pjúra víti. Johannes Vall hangir aftan í Stefáni Árna og þetta er ekkert annað en vítaspyrna,“ sagði Atli Viðar.

„Hann rænir hann frákastinu. Það er klárt mál. Þetta er pjúra víti,“ sagði Jón Þór en atvikið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Pepsi Max Stúkan - Vítið sem KR átti að fá

Stefán Árni fékk hins vegar víti á 68. mínútu þegar Patrick Pedersen braut á honum. Sérfræðingarnir voru sammála um að það hafi verið réttur dómur þótt Stefán Árni hafi farið frekar skringilega niður.

KR náði forystunni á 9. mínútu í leiknum í gær þegar Hannes missti skalla Guðjóns Baldvinssonar klaufalega undir sig.

Sebastian Hedlund jafnaði fyrir Val á 44. mínútu og gestirnir skoruðu svo tvö mörk í upphafi seinni hálfleiks, fyrst Haukur Páll Sigurðsson og svo Sigurður Egill Lárusson. Pálmi Rafn minnkaði muninn í 2-3 á 68. mínútu en nær komust KR-ingar ekki þrátt fyrir linnulausa sókn.

KR er í 7. sæti Pepsi Max-deildarinnar með fjögur stig en Valsmenn í því fjórða með tíu stig.


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×