Erlent

Sér ekki fram á að á­rásum linni

Sylvía Hall skrifar
Benjamin Netanyahu segir Ísraela einungis vera að verja sig og að árásum sé beint að Hamas. Óbreyttir borgarar eru þó í meirihluta þeirra sem hafa fallið.
Benjamin Netanyahu segir Ísraela einungis vera að verja sig og að árásum sé beint að Hamas. Óbreyttir borgarar eru þó í meirihluta þeirra sem hafa fallið. Getty/Artur Widak

Forsætisráðherra Ísrael segir árásir Ísraelshers halda áfram og að hann sjái ekki fram á að þeim linni í bráð. Ísrael sé einungis að verjast árásum Hamas og markmiðið sé að fella liðsmenn samtakanna, sem að hans mati séu að nota óbreytta borgara sem skildi.

Mikið mannfall hefur orðið á Gasasvæðinu vegna árása Ísraelshers en í það minnsta 188 Palestínumenn hafa látið lífið, þar á meðal 55 börn. Mannfallið er því mun hærra en það sem hefur orðið í Ísrael, en þar hafa átta látist.

„Ég held að öll lönd hafi rétt til þess að verja sig. Náttúrulegan sjálfsvarnarrétt,“ sagði Benjamin Netanyahu forsætisráðherra í viðtali við Face The Nation á CBS í dag. „Við erum að einblína á hryðjuverkasamtök sem beina árásum sínum á óbreytta borgara okkar en fela sig á bak við sína eigin.“

Hann segir að átökin „muni taka tíma“ og kippir sér lítið upp við ákall alþjóðasamfélagsins um vopnahlé. Í ávarpi sínu til þjóðarinnar, sem vitnað er til á vef Financial Times, sagði hann alltaf vera þrýsting; „en heilt yfir erum við að fá alvöru stuðning, fyrst og fremst frá Bandaríkjunum.“

Loftskeyti Ísraela hafa jafnað margar stærstu byggingar Gasasvæðisins við jörðu, þar á meðal skrifstofur og íbúðarhúsnæði. Í gærnótt var bygging sem hýsti meðal annars skrifstofur fréttastofanna AP og Al Jazeera sprengd í loft upp. Blaðamenn og aðrir starfsmenn fengu skamman tíma til að forða sér, en ísraelski herinn fullyrðir að í byggingunni hafi verið eignir Hamas-liða.

„Gjörsamlega hræðilegt“ 

Víða um heim hefur mótmælt vegna loftárásanna og leiðtogar heimsins kallað eftir því að átökum linni á svæðinu. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna sagði stöðuna „gjörsamlega hræðilega“ og sagði nauðsynlegt að árásum yrði hætt.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundaði í dag og sagði Antonio Guterres að Sameinuðu þjóðirnar væru að taka virkan þátt í því að hvetja báðar þjóðir til vopnahlés. Bandaríkin sögðust hafa lýst því yfir við bæði Ísrael og Palestínu að þau séu tilbúin að bjóða fram stuðning, ef aðilar sættast á vopnahlé.

„Bandaríkin hafa unnið sleitulaust í gegnum diplómatískar leiðir að binda enda á þessa deilu,“ sagði Linda Thomas-Greenfield, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. „Því við trúum því að Ísraelar og Palestínumenn eigi jafnan rétt til þess að búa við öryggi.“


Tengdar fréttir

Viðskiptabann við Ísrael ekki á teikniborðinu

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lítur svo á að Ísland geri það sem það geti í átökum Ísraels og Palestínu. Viðskiptabann sé ekki það fyrsta sem komi upp í hugann sem viðbrögð frá 370 þúsund manna þjóð.

Árásir halda áfram og heimili leiðtoga Hamas jafnað við jörðu

Samhliða því að verða fyrir auknum þrýstingi um að koma á vopnahléi virðast Ísraelsmenn hafa hert loftárásir sínar á Gasa-ströndina. Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra, heitir áframhaldandi árásum en her Ísraels segist hafa jafnað hús leiðtoga Hamas á Gasa og bróður hans við jörðu í nótt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×