Íslenski boltinn

Fjolla Shala til liðs við Fylki

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fjolla í leik með Blikum sumarið 2018. 
Fjolla í leik með Blikum sumarið 2018.  Vísir

Fjolla Shala hefur samið við Fylki um að leika með liðinu næstu tvö árin hið minnsta. Frá þessu var greint á Facebook-síðu Fylkis fyrr í kvöld.

Hin 28 ára gamla Fjolla lék með Fylki frá 2009 til 2011 en þaðan lá leiðin til Breiðabliks. Þar hefur hún leikið við góðan orðstír en Fjolla var frá vegna meiðsla allt síðasta tímabil er Breiðablik varð Íslandsmeistari í knattspyrnu.

„Fjolla, sem er 28 ára gömul, þekkir vel til í Árbænum og er mörgu Fylkisfólki kunn. Hún skottaðist yfir til okkar frá grönnum okkar í Leikni haustið 2008 aðeins 15 ára gömul og lék í kjölfarið með meistaraflokki félagsins þrjú tímabil í efstu deild, 2009-2011. Alls lék Fjolla 47 leiki í Íslandsmóti og bikarkeppni fyrir félagið áður en hún hélt til Breiðabliks þar sem hún hefur leikið síðastliðin 9 ár,“ segir í yfirlýsingu Fylkis.

„Fjolla er reynslumikill leikmaður og bindum við miklar vonir við að hún eigi eftir að styrkja og reynast okkar unga og efnilega liði vel. Hún hefur leikið 172 meistaraflokksleiki, þar af 157 í efstu deild og bikar. Þá hefur Fjolla leikið 31 yngri landsleik fyrir Íslands hönd auk þess sem hún hefur leikið 5 leiki með A-landsliði Kosovo.“

Fylkir er sem stendur í neðsta sæti Pepsi Max deildar kvenna eftir 9-0 tap gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks á Kópavogsvelli í fyrstu umferð. Þá var leik liðsins og nýliða Tindastóls frestað svo næsti leikur Árbæinga er gegn Val á Hlíðarenda.

Fjolla Shala mætt aftur í Árbæinn! Fylkir og Breiðablik hafa komist að samkomulagi um félagaskipti Fjollu Shala til...

Posted by Íþróttafélagið Fylkir on Tuesday, May 11, 2021



Fleiri fréttir

Sjá meira


×