Erlent

Hundrað dagar frá valdaráninu í Mjanmar

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá mótmælum í Mjanmar í dag.
Frá mótmælum í Mjanmar í dag. AP

Hundrað dagar eru liðnir frá því her Mjanmar tók þar völd. Það var gert á grundvelli grunsamlegra ásakana um kosningasvindl og var Aung San Suu Kyi, leiðtoga ríkisins komið frá völdum. Síðan þá hefur mikil óreiða og hundruð almennra borgara liggja í valnum.

Þrátt fyrir töluverðan utanaðkomandi þrýsting hefur herstjórnin ekki sýnt fram á að meðlimir hennar hafi áhuga á að breyta um stefnu. Yfirvöld í Kína og Rússlandi hafa hingað til komið í veg fyrir refsiaðaðgerðir á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Hagkerfi Mjanmar hefur þrátt fyrir það beðið mikla hnekki vegna umfangsmikilla verkfalla.

Herstjórninni hefur að mestu gengið vel í að loka á sjálfstæða fjölmiðla og koma í veg fyrir mjög fjölmenn mótmæli með því að beita miklu valdi.

AP fréttaveitan segir til að mynda að talið sé að rúmlega 750 mótmælendur og aðrir borgarar hafi verið felldir af öryggissveitum Mjanmar frá valdaráninu.

Blaðakonan Thin Lei Win segir að herstjórnin telji líklegast að daglegt líf sé að færast aftur í eðlilegt horf í Mjanmar og þá aðallega vegna þess að þeir eru að drepa færri en þeir hafa verið að gera. Hins vegar sé það ekki hennar tilfinning eftir að hafa rætt við íbúa.

Andstaðan við herstjórnina sé hins vegar ekki eins sýnileg og hún var.

David Mathieson, annar sérfræðingur um málefni Mjanmar sem rætt var við segir að útlit sé fyrir að vegna þess mikla ofbeldis sem herstjórnin hafi beitt, séu andstæðingar hennar tilbúnir til að beita meira ofbeldi en áður.

Hann segist þegar hafa séð ummerki um það og að sá möguleiki sé fyrir hendi að Mjanmar gæti gengið í gegnum mikið átakatímabil.

AFP fréttaveitan segir frá því að margir andstæðingar herstjórnarinnar hafi flúið í faðm skæruliða á landamærum Mjanmar. Þar hafi átök aukist að undanförnu en skæruliðar hafi einnig veitt fólki þjálfun í vopnaburði.


Tengdar fréttir

Meira en 40 börn hafa látist í á­tökunum í Mjanmar

Minnst 43 börn hafa verið drepin af mjanmarska hernum frá 1. febrúar síðastliðnum, þegar herinn rændi völdum í landinu. Frá valdaráninu hafa stuðningsmenn lýðræðislega kjörinnar ríkisstjórnar landsins og herinn tekist á og hundruð dáið í átökunum.

For­dæma of­beldið í kjöl­far blóðugasta dags mót­mælanna

Morð stjórnvalda í Mjanmar á fjölda mótmælenda hafa vakið hörð viðbrögð annarra þjóða, en utanríkisráðherrar tólf þjóða hafa fordæmt athæfi herforingjastjórnarinnar í landinu, sem beitir mótmælendur hörðu ofbeldi í kjölfar valdaránsins sem framið var í landinu í upphafi febrúar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.