Erlent

Mótmælaskáld deyr eftir yfirheyrslur: Líkamsleifunum skilað án líffæra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mótmælt í Yangon.
Mótmælt í Yangon. AP

Eiginkona ljóðskáldsins Khet Thi segir hann hafa látist eftir að hafa verið handtekinn og færður til yfirheyrslu á laugardag. Líkamsleifum hans var skilað í kjölfarið en án innri líffæra.

Mótmælendur í Mjanmar hafa sótt innblástur í verk Khet Thi, sem var meðal annars þekktur fyrir línun: „Þeir skjóta í höfuðið en vita ekki að uppreisnin býr í hjartanu“. Samkvæmt Facebook-síðu skáldsins var hann 45 ára þegar hann lést.

Guardian hefur eftir eiginkonu Khet Thi að vopnaðir hermenn og lögregla hafi sótt þau hjónin og fært til yfirheyrslu á laugardag í bænum Shwebo. Shwebo er í Sagaing-héraði, sem hefur verið hjartað í mótmælum gegn herforingjastjórninni sem kom Aung San Suu Kyi frá völdum.

„Ég var yfirheyrð. Hann líka. Þeir sögðu að hann væri miðja rannsóknarinnar. En hann kom ekki aftur, bara líkami hans,“ sagði Chaw Su við BBC.

„Þeir hringdu í mig um morguninn og sögðu mér að hitta hann á sjúkrahúsinu í Monywa. Ég hélt að hann væri þar vegna brotins handleggs eða eitthvað... En þegar ég kom þangað var hann í líkhúsinu og það var búið að fjarlægja líffærin hans.“

Á sjúkrahúsinu fékk hún þær upplýsingar að Khet Thi hefði látist vegna hjartavandamála en hún hefði ekki haft fyrir því að lesa dánarvottorðið þar sem hún vissi að það væri skáldað.

Að minnsta kosti þrjú skáld hafa látið lífið vegna mótmæla eftir valdaránið í febrúar. Ljóðskáldið K Za Win, 39 ára, var skotinn til bana í Monywa snemma í mars.

„Ég vil ekki vera hetja, ég vil ekki vera píslarvottur, ég vil ekki vera veikgeðja, ég vil ekki vera kjáni,“ skrifaði Khet Thi tveimur vikum eftir valdaránið. „Ég vil ekki styðja við óréttlæti. Ef ég á aðeins mínútu ólifaða, vil ég að þá mínútu sé samviska mín hrein.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.